Breytingar og komment

Í gærkvöldi var ég í product myndatöku fyrir Serrano. Þar voru ég og Hans rekstrarstjóri að búa til matinn okkar án tillits til bragðgæða, heldur hugsuðum við aðeins um að maturinn liti sem best út. Þetta getur oft verið talsvert flókið mál, sérstaklega þegar matnum er haldið saman af tannstönglum og slíku.

Það er núna ár síðan ég fór fyrst með matinn í myndatöku. Þá var ég ein taugahrúga og kunni ekki almennilega að brjóta saman burrito. Þess vegna er burritoinn okkar flatur á matseðilssmyndum. Það hefur valdið víðtækum misskilningi, sem mun vonandi hverfa þegar við breytum um útlit á staðnum.

Í myndatökunni í fyrra var ég með magaverk úr stressi því ég fékk það á tilfinninguna að ég væri að fara útí einhverja djöfulsins vitleysu. Fannst ég ekki vita eða kunna neitt um mat og fattaði ekki alveg hvernig mér datt í hug að opna veitingastað.

En þetta reddaðist svo sem. Núna á laugardaginn eftir viku eigum við semsagt 1. árs afmæli. Þá munum við breyta aðeins um útlit á staðnum. Í myndatökunni vorum við líka að taka myndir af nýjungum, sem við ætlum að kynna smám saman á næstu mánuðum.


Annars, þá er komment númer 1000 komið á þessari síðu. Það var þetta komment hjá Matta. Hann fær engin blóm, því miður 🙂

Þess má geta að færslurnar eru komnar uppí 950 stykki. Með þessu áframhaldi ætti ég að komast yfir 1000 fyrir lok þessa árs. Í gærkvöldi hrundi svo MySQL gagnagrunnurinn, sem gaf mér létt sjokk. Allar færslurnar og öll komment hurfu í nokkra klukkutíma. En (eftir 4 taugaáföll) tókst mér að redda því aftur.