50 staðir til að fara á áður en þú deyrð (uppfært)

Nokkuð skemmtilegar pælingar á BBC: 50 Places to see before you die

Þetta var könnun, sem BBC gerðu meðal lesenda. Listinn er áhugaverður og þarna er fullt af stöðum, sem mig langar gríðarlega til að heimsækja, en listinn er líka býsna skrítinn á köflum. Til dæmis skil ég ekki hvernig í andsk** Florida komst í þriðja sæti. Ef það er eitthvað merkilegt að sjá á Florida, þá missti ég af því.

Ég verð að segja að ég hefði nú til dæmis skipt Florida út fyrir Saltvötnin í Bólivíu. Einnig mundi ég taka út Rio og setja inn til dæmis Havana eða Buenos Aires (útaf besta næturlífi í heimi).

Ég hef komið á 9 staði á þessum lista :

Florida: Fór til Florida með fjölskyldunni þegar ég var 14 ára gamall. Fór í Disney World og allt það dót. Fór síðan aftur þegar ég var 24 ára í Spring Break með Hildi og Dan vini mínum.

New York: Hef komið tvisvar til New York. Fyrst þegar ég var 19 ára, þegar til að heimsækja vinkonu mína, sem var í skóla þar nálægt. Einnig fórum við Hildur þarna þegar ég var 21 árs. Í bæði skiptin vorum við þar um vor og í bæði skiptin var ég afskaplega hrifinn. Frábær borg, en samt var ég ofboðslega feginn að koma aftur til Chicago eftir seinni ferðina.

Macchu Picchu: Á þennan magnaða stað hef ég komið tvisvar. Þegar ég var skiptinmei í Venezuela fór ég með fósturfjölskyldunni minni til Perú í einn mánuð. Þá var ég á Macchu Picchu í æðislegu veðri. Í seinna skiptið fór ég með þrem vinum mínum og löbbuðum við Inka slóðina í 3 daga upp til Macchu Picchu, þar sem var þoka stóran hluta dagsins, en samt gátum við vel notið þessarar mögnðu borgar.

Niagara Falls. Þegar ég var 24 ára fór ég með Hildi til Niagara Falls í Kanadaferðinni okkar. Fossarnir eru magnaðir, en bærinn í kringum þá er hreinasta túristahelvíti.

Iguassu Fossa: Stórkostlegir fossar á landamærum Paragvæ, Brasilíu og Argentínu. Ég og Emil eyddum tveim heilum dögum við að skoða fossana og það var alls ekki of mikill tími.

Rio de Janeiro: Þarna var ég þegar ég var 21 árs gamall. Mjög skemmtileg borg, en samt ekki eins heillandi og Salvador. Samt frábær borg.

Barcelona: Fallegasta borg, sem ég hef komið til. Næstbesta fótboltalið í heimi, æðislega fallegar byggingar en allt allt allt of mikið af fólki.

Ísland: Held að ég hafi séð nokkurn veginn allt landið. Mamma og pabbi sáu til þess.

Angel Falls: Sá þennan foss í Suður-Ameríkuferð okkar vinanna. Tókum litla flugvél frá Ciudad Bolivar og flugum framhjá þessum ótrúlega fossi. Veðrið var ekki alveg eins gott og við hefðum óskað, en samt mögnuð sjón. Mig langar alltaf að fara aftur á rigningartímabilinu, því þá er hægt að sigla nálægt fossunum (þeir eru það afskekktir að það liggur enginn vegur í mörg hundruð kílómetra radíus frá þeim)
Continue reading 50 staðir til að fara á áður en þú deyrð (uppfært)