"Slappað af"

Í dag ákvað ég að fresta öllu íbúðarstússi til að bjarga geðheilsu minni. Þess í stað skellti ég mér á snjóbretti og seinni partinn barðist ég við skrímsli í Írak. Mikið var það gaman.

Ég er reyndar ennþá haldinn einhverjum skólakomplex, því ég get aldrei slappað almennilega af, án þess að líða einsog ég sé að skorast undan því að gera eitthvað nytsamlegra.

Það var nefnilega þannig í skóla að ef ég var eitthvað að slappa af um helgar, þá fékk ég alltaf samviskubit, því það voru allta einhver verkefni, sem maður átti eftir að gera. Þess vegna gat ég aldrei notið afslöppunarinnar almennilega.

Enn þann dag í dag get ég ekki losnað við þessa tilfinningu. Ég ákvað að gera ekki nokkurn skapaðan hlut í dag nema sitja fyrir framan sjónvarpið, en samt var ég alltaf að kíkja á tölvupóstinn minn og tékka hvort síminn minn væri ekki örugglega í lagi. Svo fékk ég líka geðveikt samviskubit yfir því að ég nennti ekki að fara í Byko að kaupa gólflista í íbúðina. Ég bara nennti því svooo ekki.

Þrátt fyrir þessi afslappsvandræði, þá var alveg fáránlega gott að geta eytt heilum sunnudegi í leti án þess að vera einu sinni þunnur. Ég ætti að gera þetta oftar.