Tónlistin mín farin

Hvað í andskotanum hef ég gert til að reita til reiði “Guð Harðra Diska”?

Það er rúmlega ár síðan að harði diskurinn minn eyðilagðist. Þá tapaði ég margra ára gögnum, allt frá ástarbréfum til háskólaritgerða.

Svo núna áðan var ég að fá þær fréttir frá Apple IMC að tónlistardiskurinn minn væri ónýtur. 111 GB af tónlist, 1250 Geisladiskar, 17.000 lög eru horfin. Ég veit eiginlega ekki hvort ég á að gráta eða brjálast.

Ég skil líka ekki ástæðurnar. Ég var ekkert að gera. Diskurinn ákvað bara að deyja inní tölvunni minni. Einn daginn birtist hann ekki á skjáborðinu og síðan hef ég ekki getað náð í neitt af tónlistinni minni.

Ég var búinn að eyða fáránlega miklum tíma í að setja alla geisladiskana mína inná tölvuna, laga öll skáarnöfn til, setja inn plötuumslögin og svo framvegis. Núna er öll sú vinna farin. Ég átti ekki backup af þessu enda fáránlega dýrt að eiga backup af svona gríðarlegu magni af gögnum. Eina góða er að 30Gb af þessari tónlist eru inná iPodinum og svo eru tveir vinir mínir nýbúnir að fá eitthvað af tónlistinni.

Þetta er ekki góður dagur!

Uppfært: Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá hreinsaði iTunes allt útaf iPodinum um leið og ég stakk honum í samband. Ég held að ég fari bara að sofa, þetta er greinilega ekki minn dagur.