Fahrenheit 9/11

Einsog ég hef minnst á, þá fór ég og sá Fahrenheit 9/11 á þriðjudaginn. Sá myndina klukkan hálf ellefu í kvikmyndahúsi í Houston, Texas. Og biðröðin inná myndina náði nánast í kringum kvikmyndahúsið. Þannig að jafnvel í ríki George Bush er áhuginn á myndinni gríðarlegur.

Gagnrýnin sem ég hafði lesið og séð um myndina er fáránleg, sérstaklega þar sem flestir íhaldssamir gagnrýnendur höfðu alls ekki séð myndina áður en þeir hófu gagnrýnina. Margir halda því fram að Moore hati Bandaríkin og sé á móti hermönnum, en sennilega er fátt jafn fjarri sannleikanum. Moore elskar Bandaríkin meira en allir þessir “ditto-hausar”, sem samþykkja skilyrðislaust allt sem Bush segir og gerir. Honum er einfaldlega mikið í mun um að landið breytist til batnaðar. Alveg einsog mörgum Evrópubúum, þá blöskrar Moore hvernig Bush og hans félagar hafa farið með stjórn landsins. Fahrenheit 9/11 er beitt gagnrýni á Bush og bandarísk stjórnvöld, en jafnframt óður til bandarísku þjóðarinnar og ákall til hennar um að koma Bush frá völdum

**Myndin er snilld.**


Einsog [Paul Krugman bendir á í pistli sínum](http://www.iht.com/articles/527698.html), þá hefði myndin verið mun betri ef Moore hefði einfaldlega sleppt samsæriskenningum sem koma fram í myndinni. Í aðdraganda frumsýningu myndarinnar var mikið gert úr fullyrðingum Moore um samskipti Bush og Bin Laden, auk samstarfs fyrirtækja tengdum Bush við Sádi Arabíu. Ég veit ekki hvort þær eru allar sannar, en sennilega er hægt að finna einhverjar staðreyndavillur í þeim kenningum. Á þeim forsendum hafa margir gert lítið úr myndinni. Þeir, sem einblýna hins vegar á þær villur eru algjörlega að missa af boðskapi myndarinnar.

Myndin er nefnilega hárbeitt gagnrýni á Bush og það ástand, sem hann hefur skapað undanfarin ár. Hún sýnir okkur afleiðingar gjörða Bush. Allt frá hnignun ameríska hagkerfisins til þeirra þjáninga, sem aðgerðir hans hafa ollið öðrum þjóðum og hans eigin þegnum.
Continue reading Fahrenheit 9/11