Kim-Jong Tiger

Þetta [brjálæðislega komment](https://www.eoe.is/gamalt/2003/02/09/23.23.45/#2813) minnti mig á atriði, sem ég ætlaði að fjalla um fyrir löngu. Það er gríðarlegir golfhæfileikar Kim Jong Il, leiðtoga Norður-Kóreu.

Málið er að einsog [NY Times](http://www.nytimes.com/2004/07/04/weekinreview/04mcgr.html?ex=1089518400&en=526ef68a6e62c56b&ei=5062&partner=GOOGLE) fjalla um í þessari grein, þá er Kim-Jong Il, leiðtogi Norður-Kóreu, ekki einungis mikill friðarsinni og mannvinur, heldur einnig BESTI golfspilari í heimi.

Kim-Jong Il hóf að spila golf árið 1994. Hann byrjaði vel (samkvæmt Norður-Kóreskum fréttastofum), því á fyrstu holunni sinni, þá fór hann holu í höggi. Ekki nóg með það, heldur á fyrsta hringnum fór hann holu í höggi alls fimm sinnum af 18 holum. Í lok dags hafði hann spilað þessar 18 holur á 39 höggum, sem er einmitt 38 undir pari vallarins.

Besta skorið á PGA túrnum er 59 högg, eða 20 fleiri högg en Kim-Jong Il fór á í sitt fyrsta skipti. Þannig að það er ljóst að leiðtogi Norður-Kóreu er mikið undrabarn á golfvellinum.