Múrinn og Heimdallarskólinn

Þau á Múrnum skrifa í dag gott [andsvar við grein Hafsteins Þórs, formanns SUS](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1312&gerd=Frettir&arg=5), sem birtist fyrir nokkru [á frelsi.is](http://www.frelsi.is/graentogvaent/nr/2450).

Hafsteinn Þór er hugsjónarmaður, en umfram allt foryngjahollur og því hefur hann nánast ekkert gagnrýnt flokkinn sinn fyrir atferli hans í fjölmiðlamálinu og öllu því tengdu. Í stað þess að svara gagnrýni stjórnarandstæðinga og Múrsins tekur Hafsteinn [46 ára gömul ummæli sósíalista og gerir þau að aðal-umfjöllunarefni sínu](http://www.frelsi.is/graentogvaent/nr/2450). Með því var hann víst að skjóta á umfjöllun Múrsins um þjóðaratkvæðagreiðslur, þrátt fyrir að þau á Múrnum hafi ekki verið fædd þegar þessi ummæli voru höfð.

Vandamálið er bara að einsog [andsvar Múrsins](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1312&gerd=Frettir&arg=5) sýnir, þá er þetta kvót hans Hafsteins einungis útúrsnúningur.

Það er yndislegt að Hafsteinn skuli enn vera jafn dásamlega upptekinn af því að berjast við kommúnisma og hann hefur ávallt verið. Þar sem hann hefur lítil rök inní deilur nútímans, þá kýs hann frekar að beita hárbeittum rökum gegn stefnu, sem dó fyrir mörgum árum. Það er nefnilega auðveldara að grafa upp áragömul, misgáfuleg ummæli andstæðinga sinna, heldur en að eiga rökræður við þá í nútímanum (þó er verra þegar ummælin standast ekki einsog Múrinn sýnir fram á).

Hafsteinn hefur skrifað nákvæmlega tvær greinar á frelsi.is eftir að Davíð tók af okkur þjóðaratkvæðið. Sú fyrri fjallaði um það hversu [kjaftfor Steingrímur J. er](http://www.frelsi.is/greinar/nr/2443) og sú seinni var um [meint 46 ára gömul ummæli](http://www.frelsi.is/greinar/nr/2450) fyrrum þingmanns Vinstri-Grænna.

Það er greinilegt að formaður SUS er með puttana á púlsi þjóðlífsins. Ef ungliðar flokksins eru svona úr takti við restina af þjóðinni, er það þá furða að þingmenn sama flokks séu heillum horfnir?