Fjölmiðlafrumvarps- kjaftæðisendalok

Við unnum!

[Davíð tapaði](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1094261).

Ég veit að ég ætti að vera glaðari nú þegar Davíð hefur þurft að viðurkenna fullkominn ósigur. Algjörlega fullkominn ósigur!

En þessa þrjá mánuði í lífi mínu fæ ég ekki tilbaka. Davíð er búinn að valda stríðsástandi í þjóðfélaginu bara af því að hann þolir ekki Baug. Og núna er Davíð búinn að viðurkenna ósigur, en samt viðurkennir hann auðvitað ekki neitt. Einhvern veginn er það ekki ósigur í hans augum að við stöndum núna í nákvæmlega sömu sporum og fyrir þrem mánuðum.


Davíð kvartar um að völd færist á færri hendur, en gleymir að minnast á það að hann og Halldór eru búnir að taka öll völd í sínar hendur. Mikið er það nú samt illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum þegar að *Framsóknarmenn eru orðnir rödd skynseminnar*.

Finnst ykkur, sem eruð sæmilega frjálslynd og enn í Sjálfstæðisflokknum, það ekki vera sorglegt?

Ég bara skil ekki þetta unga fólk í flokknum. Hvernig getur það stutt Davíð og þessa vitleysu alla? Finnst því þetta allt vera í fínasta lagi?

Ég var að spá í þessu þegar ég var að lesa þennan [pistil Járnskvísunnar ](http://www.jarnskvisan.com/archives/003362.html) og áttaði mig á að þetta er allt saman kjaftæði. Ég er ábyggilega miklu nær ungum Sjálfstæðismönnum í skoðunum en þeir eru Davíð. Samt verja þau hann og alla hans menn. En þegar Össur kemur í sjónvarpið og bendir á hina augljósu vitleysu í ríkisstjórninni, þá fer hann alveg hræðilega í taugarnar á Sjálfstæðisfólki.

Er það kannski eini munurinn á okkur? Hverjir fara í taugarnar á okkur. Ég er nánast með ofnæmi fyrir Einari Guðfinns, en líkar ágætlega við Össur. Ungu Sjálfstæðismennirnir fyrirlíta hins vegar Össur og eru með mynd af Einari Guðfinns uppá vegg. Er munurinn á okkur bara einhverjar tilfinningar gagnvart einstaklingum?

Ég hef heyrt fulltaf fólki segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf því að Össur sé þetta eða hitt. Það skil ég ekki, því stjórnmálaflokkar eiga umfram allt að snúast um málefni en ekki skemmtilega leiðtoga. Er það kannski bara rugl hjá mér?

Ég hef nánast aldrei heyrt hægri-sinnað-ungt-fólk segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf stefnu flokksins, heldur kvartar það bara yfir Össuri og Ingibjörgu.

Látum við virkilega skoðanir okkar stjórnast af því hvort okkur líkar vel eða illa við einhverja fimmtuga kalla?

Er það ekki dálítið skrítið?


En það er svosem ágætt að þetta er búið, þrátt fyrir að mér finnist rosalega gaman að fylgjast með pólitík og það verður dauft núna þegar ekki er hægt að rífast um þetta.