Fahrenheit umræða

Fahrenheit 9/11 verður frumsýnd um helgina á Íslandi og því er hafin umræða um myndina hér á landi.

Ég sá myndina fyrir nokkrum vikum og skrifaði um hana hér: [Fahrenheit 9/11](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/)

Í Kastljósi í kvöld var riddari sannleikans frá því í fjölmiðlamálinu, Ólafur Teitur að þræta við [Sverri Jakobsson](http://kaninka.net/sverrirj/010514.html) og kvikmyndagagnrýnanda (Ólaf Torfason) um myndina.

Ólafur Teitur er löngu hættur að reyna að fela stjórnmálaskoðanir sínar, þrátt fyrir að hann sé blaðamaður. Hann, líkt og ansi margir hægrimenn í Bandaríkjunum kýs að einbeita sér að meintum staðreyndavillum í myndinni, svosem að Michael Moore hafi ekki getið þess rétt hvað bókin, sem Bush las í 7 mínútur í skólastofu á Florida á meðan ráðist var á Bandaríkin, hét. (Ok, Ólafur tiltók líka aðrar merkilegri meintar staðreyndavillur. Flestar þeirra eru ræddar [hér](http://www.michaelmoore.com/warroom/f911notes/)).

Einsog ég [skrifaði um áður](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/), þá eru samsæriskenningarnar án efa veikasti hluti myndarinnar. Ekki vegna þess að þær séu endilega ósannar, heldur draga þær úr áhrifum bestu hluta myndarinnar, sem sýna áhrif efnahagsástandsins og stríðsins í Íraks á venjulegt fólk. Vegna galla á samsæriskenningunum geta menn gert lítið úr bestu atriðunum með því að benda á óskyldar meintar staðreyndavillur í öðrum atriðum og þannig dregið á ósanngjarnan hátt úr trúverðugleika myndarinnar.

Besti hluti Fahrenheit 9/11 er nefnilega að hún gefur atburðum síðustu ára andlit. Í stað þess að heyra um tölfræði, þá sjáum við fólkið, sem stríðið og stefna Bush snertir. Auk þess gagnrýnir myndin á skemmtilegan hátt alla geðveikina í kringum Bush stjórnina, allt frá appelsínugulum hryðjuverkavörnum til skerðingar á borgaralegum réttindum Bandaríkjamanna.

Hversu margar meintar staðreyndavillur, sem Ólafur Teitur og félagar finna, þá nær það ekki að grafa undan þeim meginboðskap myndarinnar að Bush stjórnin hefur grafið undan réttindum borgara sinna, öryggi þeirra, sem og orðspori Bandaríkjanna á alþjóða vettvangi.