Á hvað ertað hlusta?

Fyrir [nokkrum vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/13/00.18.49/#2857) var mér bent á [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com) í kommenti við færslu á þessari síðu.

Þegar síðan opnaði aftur eftir breytingar dreif ég mig og skráði mig. Þetta virkar þannig að maður setur lítið plug-in fyrir iTunes eða annað tónlistarforrit á tölvuna sína. Svo þegar maður spilar tónlist í iTunes, þá uppfærist það sjálfkrafa í [prófíl](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/) á Audioscrobbler. Þannig heldur síðan utanum hvaða tónlist maður hlustar á og með einföldum hætti er hægt að sjá hvaða fólk er að hlusta á sömu tónlist. Þannig er með einföldum hætti hægt að sjá hvaða nýju bönd þetta fólk er að hlusta á.

[Minn prófíll er hér](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/).

Ég hef bara verið skráður í nokkra daga, þannig að það eru fá lög skráð, en smám saman verður þetta athyglisverðara.

Það er gríðarlega margt skemmtilegt í þessu. Til dæmis ef maður smellir á [Beck](http://www.audioscrobbler.com/music/Beck), þá sér maður hvaða lög eru vinsælust með Beck hjá notendum Audioscrobbler. Þar kemur í ljós að Loser (æji!) er vinsælast. Ég komst líka að því að ég hafði aldrei heyrt af laginu í öðru sæti, Everybody’s Gotta Learn Sometimes. Komst að því að það lag var í [Eternal Sunshine of the Spotless Mind](http://imdb.com/title/tt0338013/), sem ég hef ekki séð. Ég náði mér í lagið og það er gargandi snilld. Ég hefði sennilega ekki uppgötvað það á næstunni ef ekki væri fyrir [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com).

Það má segja að eini gallinn enn sem komið er við þessa síðu, sé sá að hún tekur ekki upplýsingar um lagaspilun úr iPod-inum mínum. En ég hvet alla til að skrá sig á [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com), þetta er alger snilld. Sniðug hugmynd og frábærlega einföld og skemmtileg hönnun á vefsíðu.


Enn meiri snilld er samt [Last.fm](http://www.last.fm/), sem tengist gögnunum í Audioscrobbler. [Last.fm](http://www.last.fm/) virkar þannig að þegar þú hefur hlustað á nóg af tónlist með Audioscrobbler í gangi (a.m.k. 300 lög), þá reynir Last.fm að meta tónlistarsmekk þinn eftir því hvað þú hlustaðir á.

Last.fm býr síðan til þína eigin útvarpsstöð, sem þú getur hlustað á á netinu. Þannig að ef þú hlustar mikið á Jay-Z og Eminem, þá býr forritið til útvarpsstöð með mikið af hip-hop efni og svo framvegis. Þetta er því FRÁBÆR leið til að heyra nýja tónlist.

Þetta er svo mikil snilld að ég á varla til orð!

Frekara lesefni: [Wired: Last.fm: Music to Listeners’ Ears](http://www.wired.com/news/culture/0,1284,59522,00.html)

**Uppfært**: Ég var búinn að bæta þessu við í kommentunum, en ekki allir lesa þau. Allavegana, þá stofnaði ég [hóp fyrir Ísland](http://www.audioscrobbler.com/group/Iceland). Þannig að það væri gaman ef þeir, sem eru skráðir þarna myndu ganga í hópinn. Ég veit reyndar ekki af hverju það er mynd af mér á hóp-síðunni. Þetta er ekki eitthvað egó í mér, heldur fatta ég einfaldlega ekki hvernig á að breyta um mynd á hóp-síðum.