Biðraða-kjaftæði

Ok, nú er nóg komið. Þessari geðveiki verður að linna!

Ég fór ásamt vini mínum og kærustu hans á [Vegamót](http://www.vegamot.is) í gær. Ég og vinur minn vorum bara rólegir, höfðum hangið heima hjá mér um kvöldið og vorum mættir á Vegamót um 1.30.

Þar var biðröð, einsog við var að búast enda er nánast alltaf biðröð fyrir utan Vegamót. Fyrir utan Vegamót, líkt og t.d. [Hverfisbarinn](http://www.hverfisbarinn.is/) eru tvær biðraðir. Önnur vanalega löng, hin stutt. Á Hverfis er þetta kallað “VIP” röð, og ég geri ráð fyrir að svo sé líka á Vegamótum. VIP á ensku stendur fyrir “Very Important Person”. Ég hef ýmislegt á móti þessum “VIP” biðröðum, en fyrst að sögunni.

Allavegana, við förum í biðröðina. Við vorum öll frekar róleg og smám saman færðumst við nær staðnum. Þegar við erum komin uppað hurðinni stoppar biðröðin hins vegar enda staðurinn fullur. Við bíðum í smá tíma. Í hina biðröðina (“VIP” röðina) kemur hins vegar hópur af stelpum. Sennilega ekki mikið eldri en 16 ára (á Vegamótum er 22 ára aldurstakmark). Þær voru 10 saman.

Þær byrja strax að væla í dyravörðunum. Vildu fá að komast inn á staðinn án þess að þurfa að bíða í biðröð. Þær halda áfram að röfla og reyna að daðra við dyravörðinn. Ekkert gengur, en allt í einu opnast hliðið á VIP röðinni og þeim er öllum hleypt inn.

Þannig að eftir 5 mínútna röfl var þeim hleypt inn, *aðeins af því að þær fóru í VIP röðina*. Þær þekktu ENGAN, þær voru ekki frægar, og voru ólíklegar til að eyða einni krónu inná þessum skemmtistað.

Nú skal ég játa það að ein af ástæðum þess að ég sæki Vegamót er sú að þar er alveg með ólíkindum mikið af sætum stelpum. Í hópnum voru vissulega sætar stelpur. En í biðröðinni fyrir aftan okkur var líka heill haugur af sætum stelpum. Þær stelpur ákváðu hins vegar að fara í rétta röð og taka lífininu rólega. Fyrir það var þeim verðlaunað með að þær fengu að hanga 20 mínútum lengur en stelpurnar, sem röfluðu í “VIP” röðinni.

**Er eitthvað vit í þessu?**

Við komumst á endanum inn, um 10 mínútum á eftir gelgjunum. Inná staðnum var mjög fínt. Ótrúlega sætar stelpur einsog vanalega og frábær tónlist. Sá stelpu, sem ég er pínu skotinn í (VÁ hvað hún var sæt!) en þorði ekki að segja neitt. Þetta græðir maður á því að fara nánast bláedrú á djammið. 🙂
Continue reading Biðraða-kjaftæði