Chavez áfram! Ó kræst!

0602chavez.jpgJæja, nú geta þeir á [Múrnum](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1339&gerd=Frettir&arg=5) fagnað, því svo virðist sem að Hugo Chavez hafi [unnið þjóðaratkvæðagreiðsluna](http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/3569012.stm) um það hvort hann ætti að fá að sitja áfram.

Chavez er vondur forseti, sama þótt að Múrsverjar horfi með aðdáunaraugum til þess að sum verkefni hans þykji “minna mjög á fyrstu ár byltingarinnar á Kúbu”.

Venezuela er ríkt af olíulindum, en ótrúlega spilltum og vitlausum stjórnmálamönnum hefur tekist að klúðra öllum olíugróðanum og landið er eitt það fátækasta í Ameríku. Chavez lofaði öllu fögru þegar hann var kosinn fyrir fjórum árum, en hann hefur ekki staðið við margt af því.

Meðallaun eru núna á sama plani og þau voru í kringum [1950](http://www.economist.com/agenda/displayStory.cfm?story_id=3093539) og atvinnuleysi hefur aukist uppí 16%. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að olíuverð sé með allra hæsta móti. Guð hjálpi Venezuela-búum ef að Chavez hefði verið við völd þegar olíverð var lágt.

Hann hefur einnig gert sem allra mest til að auka völd sín og hefur m.a. gert hæsta réttinn nánast sinn eigin, bæði með því að fjölga dómurum og með því að koma þar fyrir vinum og vandamönnum.

Þeir á Múrnum ættu að finna sér skárri þjóðarleiðtoga til að [verja](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1339&gerd=Frettir&arg=5), heldur en Hugo Chavez.

**Uppfært**: Sverir J. [kommentar á þessa færslu á sinni síðu](http://kaninka.net/sverrirj/010609.html) og ég svara honum [hér](https://www.eoe.is/gamalt/2004/08/16/13.40.37/#3280).