Sund á Ólympíuleikunum

Þrátt fyrir að pabbi minn hafi verið margverðlaunaður sundmaður, þá hef ég alla ævi verið blessunarlega laus við áhuga á sundi (auk þess, sem ég er alveg skuggalega lélegur sundmaður).

[Þetta blogg hjá Sverri Jakobs um sundkeppnina á Ólympíuleikunum](http://kaninka.net/sverrirj/010618.html) minnti mig á að setja fram byltingarkennda breytingatillögu mína á sundíþróttinni, sem ég hef verið að velta fyrir mér síðustu daga.

Mér hefur nefnilega alltaf fundist þetta verðlaunaflóð í sundi vera fáránlegt. Það er með ólíkindum að hægt sé að vinna kapp yfir sundlaug með mismunandi hætti. Þetta flugsunds, baksunds, skriðsunds dæmi er fáránlegt. Þetta er álíka og að keppt væri í 100 metra hlaupi, þar sem allir ættu að hlaupa venjulega, svo taka háar hnélyftur og því næst valhoppa á leiðarenda.

Það sjá allir að þetta er tóm steypa og aðeins gert til að verðlaunasafn sundfólks sé veglegra en annars íþróttafólks.

Því legg ég til eftirfarandi breytingartillögu:

Aðeins verður keppt í einni sundgrein á Ólympíuleikunum. Sú keppni er 100 metra sund með frjálsri aðferð. Ef einhver er fljótastur í skriðsundi, þá syndir hann skriðsund og ef einhver er fjótari í flugsundi, þá syndir hann þannig. Þarna yrði á einfaldan hátt hægt að sjá hver besti sundmaðurinn er, og hægt væri að gera keppnina mun meira spennandi.

Það nennir nefnilega enginn maður að horfa á 10 greinar í sundi. Ef þetta væri bara ein grein, þá myndi ég meira að segja horfa og þá gæti ég sagt ykkur hver væri bestur í sundi.