Kappræður í VALHÖLL

Ég tók semsagt þátt í þessum pallborðsumræðum í Valhöll í gær. [Jens fjallar](http://www.jenssigurdsson.com/entry/2004/10/16/16.41.42/index.html) um þetta á síðunni sinni.

Þarna voru þau Gísli Marteinn og Þorbjörg Helga frá Sjálfstæðisflokknum og svo ég og Karl Th. Birgis frá Jafnaðarmönnum. Við héldum fyrst smá tölur og er mín ræða neðst í þessari færslu. Ég var fáránlega stressaður þegar ég hélt ræðuna en losnaði algjörlega við allt stress þegar umræðurnar byrjuðu.

Það voru um 70 manns í salnum, þar af 60 frá Sjálfstæðisflokknum (þar af 5 konur, sem sannfærði mig endanlega að stjórnmálaþáttaka er ekki staður til að hitta kvenfólk).

Umræðurnar voru skemmtilegar, eða allavegana fannst mér gríðarlega gaman að taka þátt í þessu. Þorbjörg og Karl héldu sig frekar til hliðar. Þorgbjörg var eiginlega Kerry stuðningsmaður en myndi þó kjósa Bush, en Karl Th. fannst Kerry vera of hægri sinnaður fyrir sig.

Ég er hins vegar hrifinn af Kerry og Gísli Marteinn er hrifinn af Bush og því voru þetta oft á tíðum deilur á milli mín og Gísla Marteins. Gísli var ekki hrifinn af siðferðismálum Bush en var hins vegar sannfærður um að efnahagsstefna hans væri sú eina rétta. Ég er náttúrulega ekki sammála því, enda finnst mér ekkert sérstaklega góður árangur að snúa fjárlaafgangi í fjárlagahalla og veita þeim 1% allra ríkustu hærri skattalækkun en 70% þjóðarinnar.

Svo var líka talað um Swift Boat rógburðinn og aðrar auglýsingar. Það sköpuðust skemmtilegar umræður á milli fólksins á borðinu og útí sal, sérstaklega þegar Björgvin Ingi þrýsti á Gísla Martein að segja okkur af hverju hann styddi Bush. Gísla reyndist erfitt að telja upp kosti í stefnu hans.

Ég talaði talsvert um skattalækkunina og móðgaði víst nokkra af þeim allra hægrisinnuðustu af því að ég sagði að Bush hefði “gefið þeim allra ríkustu skattalækkun”. Það fannst þeim SUS-urum vera mikil synd, enda á maður ekki að tala um að gefa skattalækkun enda eru þetta peningar, sem fólkið á fyrir. Það er jú rétt, en það var samt fyndið að þeim fannst ekkert vera athugavert að lækka skatta á hvern einstakling í hópi þeirra 1% ríkustu 2,4 milljónir króna á ári á meðan þeir, sem minnst eiga, fá 5.000 kall á ári í skattalækkun.

En semsagt, þetta var mjög skemmtilegt og ég losnaði við stressið, þrátt fyrir að ég hefði verið í Valhöll og 80% áhorfenda hefðu verið Sjálfstæðismenn.

Ræðan mín er hér að neðan:
Continue reading Kappræður í VALHÖLL