Matarboð

Nýja U2 platan er gargandi snilld. Einu sinni þótti mér flott að kalla U2 leiðinlega hljómsveit, en í dag eru þeir æði. Síðustu tvær plötur eru frábærar.


Er búinn að vera í tveim massívum matarboðum síðustu tvo daga. Fór í jólahlaðborð með vinnunni í Skíðaskálanum á föstudagskvöld. Ég er ekki mikið fyrir þessi jólahlaðborð, en steikarborðið reddaði mér fyrir horn.

Fór svo í bæinn með fulltaf fólki úr vinnunni. Val á skemmtistöðum var vægast sagt einkennilegt fyrir djamm hjá mér. Byrjaði á einhverjum stað, sem heitir víst Vínbarinn og er rétt hjá Skólabrú. Fór síðan á Thorvaldsen. Á báðum stöðum leið mér einsog ég væri yngsti einstaklingurinn þar inni. Jú, það var geðveikt sæt stelpa að bera fram drykki á Thorvaldsen, en þetta er ekki alveg mitt krád. Ekki enn allavegana.

Fór á tóman Hverfisbar, þar sem tvær viðbjóðslega fullar stelpur tóku upp hálft dansgólfið og urðu til þess að ég hellti bjór á nýju jakkafötin mín. Þetta var í raun önnur helgin í röð, þar sem ég var á djamminu í jakkafötum. Það er frekar skrítið. Mér leið svona eiginlega einsog ég væri kominn aftur í framhaldsskóla þegar maður hélt að maður væri rosa svalur í jakkafötum, reykjandi vindla inná Skuggabarnum. Mikið var samt gaman þá.

Lét svo draga mig á Sólon en þegar þangað var komið nennti ég þessu ekki lengur. Vikan er búin að vera bilun í vinnunni og ég var orðinn frekar þreyttur.

Þreytan kom svo bersýnilega í ljós í gær þegar ég svaf (með tveggja tíma vökuhléi) til klukkan 6. Dreif mig þá í annað matarboð, sem var “Thanksgiving” matarboð, sem matarklúbburinn minn hélt. Ljómandi skemmtilegt alveg hreint. Einhvern veginn lendum við alltaf í sömu umræðinnu í þessum klúbb og svo fékk ég einhver svakalegustu skot, sem ég hef fengið, frá vinkonu minni, en þetta var samt frábært.

Ég var reyndar svo slappur þegar ég mætti í veisluna að ég gat varla borðað neitt, sem er þvílík synd, þar sem maturinn var æði. Kalkúnn með meðlæti er uppáhaldsmaturinn minn og ég fæ þann mat bara tvisvar á ári, þannig að það var synd að ég var svona slappur. En allavegana, þessar umræður, sem við dettum alltaf í í klúbbnum snúast rosalega oft um byggðamál á höfuðborgarsvæðinu, nokkurs konar togstreita milli miðbæjarins og Kópavogs. Ég ætla að skrifa aðeins um þetta hér á síðunni þegar ég nenni.

Núna eftir 45 mínútur er það Liverpool Arsenal. Tveir vinir ætla að kíkja í heimsókn og ég vona geðheilsu minnar vegna að Liverpool vinni!