Tvöþúsundogfjögur

Ok, árið er búið. Ég fokking trúi þessu ekki. Ætlaði að skrifa rosa dramatískan pistil um hvar ég stæði á þessum tímamótum, en ég á eftir að gera helling í dag og svo er ég veikur fyrir pólitískum umræðum í sjónvarpi, þannig að ég bíð með það.

Finnst ég ekki hafa gert neitt nema að vinna þetta árið. Ekki það að vinnan hefur verið ofboðslega skemmtileg (og stundum hrikalega erfið), en finnst lífið utan vinnu hafa verið viðburðarlítið.


Annars er [árslistinn hjá Múrnum](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1475&gerd=Frettir&arg=5) algjör skyldulesning. Uppáhaldspunkturinn minn:

>Forsjárhyggja ársins: Tillaga Samfylkingarinnar um að banna sælgætis- og gosauglýsingar fyrir níu á kvöldin til að vernda börn fyrir óæskilegum áhrifum slíkra auglýsinga. Næsta frumvarp mun ganga út á að binda fyrir augun á börnunum þegar þau fara í Kringluna.

Það segir ansi margt um Samfylkinguna þegar að Vinstri-Grænir eru farnir að gera grín að forstjárhyggjunni í þeim flokki. Ég styð Samfylkinguna en svona einstök vitleysa einsog þetta sælgætisfrumvarp Samfylkingarþingmanna veldur því að maður endurskoðar það hvort maður sé í réttum flokki. Viðurkenni reyndar að ég hef starf af því að selja sælgæti og (hollan) skyndibita, þannig að eitthvað er ég litaður. En ég ætla að skrifa betur um þetta seinna.

Já, og þetta er líka gott:

>Besta skemmtun ársins: Frjálshyggjufélagið, fyrir að vera það sjálft.

og

>Orsakaskýring ársins: Sú kenning Björns Bjarnasonar að ólöglegt olíusamráð hafi verið Stalín að kenna.


Jæja, þetta er komið gott. Þakka þeim, sem lásu síðuna á árinu. Það hefur verið ómissandi fyrir mig að hafa þessa síðu til að tappa af öðru hvoru. Það kemur mér sífellt á óvart hversu margir lesa þessa síðu á hverjum degi, en það gefur manni þó orku í að halda áfram.

Allavegana vona að þið eigið öll gott ár framundan og að Liverpool vinni Chelsea á morgun.

**Gleðilegt ár!**