Dans, dans, dans

Sá áðan auglýsingu fyrir Salsa námskeið hjá einhverju dansstúdíó-i. Ég þóttist einu sinni vera ýkt góður að dansa salsa og merengue, enda dansaði ég nánast hverja einustu helgi þegar ég var skiptinemi í Caracas í Venezulea fyrir alltof mörgum árum.

Partýin í Venezuela voru nefnilega algjört æði. Ég mætti edrú en fékk mér kannski 3-4 [Polar](http://www.empresas-polar.com/espanol/publi_sihay_es.html) bjóra í boði hússins. Drykkjan var hinsvegar algjört aukaatriði, ólíkt því sem gerist hérna heima. Nei, aðalatriðið var að *dansa*. Fólk setti bara merengue disk í spilarann og svo greip maður næstu stelpu og byrjaði að dansa. Og dansaði allt kvöldið. Nánast án þess að stoppa. Mikið var það æðislega gaman.

Vá, hvað ég sakna þess. Þessi hópdans, sem er stundaður á Íslandi er einfaldlega hundleiðinlegur miðað við það að dansa salsa eða merengue við stelpu.

Allavegana, stelpan, sem ætlaði með mér á salsa námskeið í haust hér á Íslandi, klikkaði á því, en ég er samt staðráðinn í að fara á námskeið fyrr en síðar. Fóstursystir mín í Venezuela kenndi mér að dansa merengue en ég lærði salsa aldrei nógu vel. Jú, einhverjar stelpur reyndu að kenna mér það bæði í Mexíkó sem og í Venezuela og á Kúbu en samt finnst mér ég ennþá vera hálfslappur í því. Og ég veit að núna er ég búinn að gleyma öllum sporunum, sem er synd.


Annars auk þess að læra salsa almennilega þá ætla ég alltaf að læra að dansa tangó. Ég sagði það einnhvern tímann við vini mína að ég ætlaði mér að gera þrennt áður en ég deyji:

1. Fara á Anfield
2. Sjá Pink Floyd á tónleikum
3. Dansa tangó við argentíska stelpu á götum Buenos Aires

Hingað til hef ég ekki gert neitt af þessu. Hef jú farið til Buenos Aires (sem er ein af mínum uppáhaldsborgum) og sá líka Roger Waters, fyrrum söngvara Pink Floyd á tónleikum. En það er ekki nóg.

Fyrir 5 árum var ég í Buenos Aires ásamt þremur af mínum bestu vinum. Við vorum þar í þrjár vikur, en samt klikkaði ég á tangó-inum með argentísku stelpunni. Ég er samt ekki ennþá búinn að gefa upp drauminn. Mig langar enn að finna þessa argentísku stelpu og dansa við hana tangó á hliðargötu í Buenos Aires alla nóttina.

Það væri æði.