So come on courage, teach me to be shy


Ég verð að segja að ég hálfpartinn dáist að fólki, sem getur pikkað út manneskju á djamminu, gengið uppað henni og hafið samræður um ekki neitt.

Ég fer á djammið vegna þess að mér finnst það skemmtilegt, en auðvitað er vonin um að finna einhvern líka partur af þessu. Það situr þó svo lítið eftir að kvöldi loknu. Í gær sá ég svo sæta stelpu á dansgólfinu að ég fékk í magann þegar hún dansaði rétt hjá mér. Hún var svo sæt að ég fann mig næstum þvi knúinn til að fara uppað henni og segja eitthvað glatað. *Næstum því!* En ég vissi ekki hvað það átti að vera, svo ég hætti við. Svo sá ég hana uppi talandi við einhvern strák og þar með var hún útúr mínu lífi. Og ég get ekki einu sinni lýst henni almennilega í dag. Kannski ef ég hitti hana aftur myndi ég muna eftir henni. Kannski ekki.

Svo sá ég aðra stelpu á dansgólfinu og sama sagan endurtók sig.

Það situr ekkert eftir í manni. Einu skiptin undanfarna mánuði, sem eitthvað hefur setið eftir í mér daginn eftir, var þegar ég hitti stelpur, sem ég hafði hitt áður. Hitti fyrir einhverjum vikum eða mánuðum stelpu, sem ég var með í skóla einu sinni en hafði ekki séð í langan tíma. Hún stóð uppúr í minningunni daginn eftir, en það gera ekki stelpur, sem maður hittir í fyrsta skiptið á djamminu. Svona er það bara.


En ég var samt á æðislegu djammi. Var með vinnunni á Thorvaldsen Bar í mat og drykk og fór svo með nokkrum á Pravda og seinna á Hverfisbarinn, þar sem ég var eitthvað frameftir. Dansaði mikið og skemmti mér æðislega.

Kom þó heim og setti Damien Rice á og sofnaði á sófanum. O er ekki beint plata, sem ég hlusta á þegar ég er í stuði, þannig að eitthvað var ég daufur í lok kvöldsins.

Vaknaði í morgun og fannst að ég hefði gert einhvern skandal, en fattaði svo að kvöldið hafði bara verið æðislegt og ég hafði hvorki sagt né gert neitt vitlaust. Labbaði niður í bæ til að sækja bílinn minn og hélt að ég hefði losnað við þynnkuna, en eftir fótboltagláp var ég orðinn svo slappur að ég ákvað að fara að sofa. Vaknaði um kl. 7. Drakk 1 lítra af Kristal og horfði á Simpsons frá því í gær. Settist svo niður hér og hugsa minn gang. Sá að ég hafði fengið email frá fóstursystur minni í Venezuela, og talaði svo við góðan vin á MSN. Sit núna og hlusta á Sea Change með Beck. Ég eeeelska þessa plötu! Líður einsog það sé sunnudagskvöld en er því feginn að það er bara laugardagur.


Mér finnst alltaf erfitt að koma aftur í vinnuna eftir hlé. Þegar maður er í vinnuferðum erlendis eiga verkefnin til með að hlaðast upp á meðan. Ég mætti í vinnuna á fimmtudag frekar þreyttur eftir að hafa komið heim seint í daginn áður. Það er eiginlega dálítið yfirþyrmandi að lesa svona mikið af tölvupósti á svo stuttum tíma. Í vinnupóstinum höfðu hlaðist upp um 90 skeyti og í prívat póstinum um 10. Maður verður kolklikkaður á að lesa svona mikið af pósti og tilfinningarnar verða fáránlega brenglaðar.

Á tæpum klukkutíma komst ég að því að ég hafði móðgað eina manneskju verulega, fundur sem ég fór á fyrir nokkrum vikum – bar lítinn árangur, þessi aðili hafði verið að kvarta, þessi aðili er byrjaður á þessu, hinn aðilinn er byrjaður á hinu. Þessi er reiður, þessi er glaður og svo framvegis…

Það bærast svo margar tilfinningar með manni eftir allan þennan lestur. Maður er ánægður með einn hlut en fúll yfir öðrum. Allt saman var þetta eiginlega of mikið fyrir mig þann daginn, sérstaklega þar sem ég var svo þreyttur. Þannig að dagurinn varð allur hálf skrítinn. En svona er þetta.