I want to fly and run till it hurts

Í janúar í einhverju mellonkollí ástandi byrjaði ég að skrifa færslu á þessa síðu um hvar ég stæði og hvað mig langaði að gera í þessu lífi. Á sunnudagskvöldum langar mig alltaf til að bæta við þá færslu, en geri samt alltaf lítið í því.

Hef aðeins sagt einum vini mínum frá efni þessarar færslu. Hann virtist skilja mig vel og þetta kom honum m.a.s. ekki svo á óvart. Kannski er það greinilegt að ég er ekki jafn sáttur við lífið og tilveruna og maður reynir að láta líta út fyrir.

Ég hef samt hikað við að setja skrifin inn á þessa síðu. Ég er nefnileag farinn að hugsa alvarlega um það hvað ég get skrifað á þessa síðu. Ég hef komist að því að fólki, sem mér líkar ekkert sérstaklega vel við, les þessa síðu nokkuð reglulega. Og eflaust líka fólk, sem líkar ekkert sérstaklega vel við mig vegna einhvers, sem hefur gerst í raunheimum.

Það finnst mér óþægilegt.

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég pottþétt miklu opinskárra um mitt einkalíf og sérstaklega hugsanir mínar um stelpur og þau áhrif, sem þær hafa á mitt líf. Mér fannst það þægilegt og ég fékk nokkra útrás með þeim skrifum. Mér var nákvæmlega sama þótt að vinir mínir, kunningjar, fjölskylda og ókunnugir læsu þetta. En þegar fólk, sem mér líkar ekki vel við, les þetta líka, þá horfir öðruvísi við. Það kom mér reyndar á óvart að viðkomandi einstaklingar skyldu lesa síðuna. En oft finnst manni einsog bara þeir sem kommenti séu að lesa, en auðvitað eru svo margir auk þeirra, sem lesa síðuna. Viðkomandi hafa aldrei kommentað á síðuna, svo það kom mér á óvart að þeir skyldu lesa hana.

Skrif mín gera mig nefnilega meira “vulnerable” því þau opinbera ansi margt um mig og innihalda sennilega fullt af hlutum, sem þeir sem mér líkar ekki vel við, geta nýtt sér gegn mér. Það þykir mér óþægilegt og þess vegna hef ég hætt við skrif á mörgum pistlum hérna.

Hingað til hefur mér einfaldlega fundist þessi síða gefa mér það mikið að það sé áhættunnar virði. Ég fæ ótrúlega mikið út úr því að skrifa hérna og enn meira út úr því, sem fólk kommentar á síðunni. Það vill maður ekki gefa eftir. Samt finnst mér einsog að undanförnu hafi ég þurft að endurskoða hvar ég dreg línurnar í skrifum mínum.

Þess vegna finnst mér einsog skrif mín séu ekki jafn góð né spennandi og þau voru fyrir einhverjum mánuðum þegar ég hugsaði minna um hverjir væru að lesa.


Og já, ef menn geta ekki lesið það af skrifunum þá [töpuðu]( https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/02/27/18.36.53/) Liverpool. Hagnaðurinn segir allt sem [segja þarf um Mourinho]( http://haukurhauks.blogspot.com/2005_02_01_haukurhauks_archive.html#110953427713216380).