Af hverju ertu ekki á föstu?

*Ok, þetta er ekki [færslan](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/27/22.53.05/index.php), en eflaust tengt henni. Eflaust eiga einhverjir vinir mínir eftir að hneykslast á því að ég skuli tala um þetta hér. En mér er nokk sama. Læt þetta bara flakka.*


Eftir að hafa lesið aftur [nýlega færslu](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/27/22.53.05/index.php) og viðbrögð við henni hef ég verið að hugsa… Gæti ástæða þess að mér finnist ég vera minna persónulegur á þessari síðu verið sú að það sé einfaldlega minna að gerast í mínu einkalífi og að ég hafi minni áhyggjur af mínum málum?

Ég get ekki losnað við þá tilfinningu að kannski sé ég bara orðinn vanur þessu hversdagslífi og sáttur við það allt. Sáttur við það hvað ég er að gera, sáttur við að vera single, sáttur við að búa í Vesturbænum. Tíminn er farinn að líða svo fáránlega hratt að mér bregður þegar ég horfi á dagatalið. Ég meina það er kominn mars! Tíminn í mínu lífi líður hratt þegar ég geri sama hlutinn dag eftir dag, viku eftir viku. Það hægist ekki á honum nema ég sé erlendis, hvort sem er í viðskiptaerindum eða í fríi.


Það fara að nálgast þrjú ár síðan ég hætti í langa sambandinu mínu, þrjú ár síðan ég útskrifaðist úr háskóla, þrjú ár síðan ég flutti heim, þrjú ár síðan ég flutti í Vesturbæinn. Ég hef gert meira í vinnunni en mig hefði órað fyrir, en stundum bregður mér þegar ég hugsa til þess hversu lítið hafi gerst utan vinnu.

Þegar ég les skrif mín á þessa síðu frá því fyrir um ári, þá var ég með stelpur á heilanum. Mér fannst ég ekki getað lifað án þess að vera í sambandi. Ég hafði vanist því að vera alltaf með einhverja stelpu á heilanum, alveg frá því ég man eftir mér.

Var í fyrsta alvöru sambandinu 17 ára. Varð ástfanginn í fyrsta skipti 19 ára. Í Verzló var ég með stelpu á heilanum, svo aðra og svo byrjaði ég með stelpu, sem ég var með í 5 ár. Eftir að það endaði, byrjaði ég svo strax með annarri stelpu. Þegar ég kom heim fékk ég aðra stelpu á heilann, sem varð til þess að ég endaði sambandið.

Gleymdi svo stelpunni, en fékk aðra stelpu á heilann. Hugsaði alltof mikið um hana þangað til að ég kynntist annarri stelpu á skemmtistað. Var með henni í einhvern tíma. Hættum saman, náði mér á því. Fékk aðra stelpu á heilann, er eiginlega enn skotinn í henni.

Á Vegamótum síðasta sumar skrifaði ég sjálfum mér sms þegar ég var blindfullur og sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum varðandi þessa stelpu. Fimm mínútum eftir að ég sendi sms-ið hitti ég aðra stelpu. Við kysstumst og ætluðum á deit daginn eftir.

Það fór einhvern veginn allt til fjandans. Áttaði mig aldrei á af hverju, en það varð bara þannig. Var dálítið erfitt fyrir mig að sætta mig við það. Fann svo út að hin stelpan, sem ég sendi sms útaf, var komin á fast. Stuttu seinna heyrði ég að Vegamótastelpan væri komin á fast.

Fór út til Bandaríkjanna, kom heim. Uppgötvaði stelpu, sem ég þekkti fyrir. Varð hrifinn, þrátt fyrir að hún væri á föstu. En gafst upp eftir einhvern tíma, þar sem ég fann alltaf einhverjar ástæður til að gera ekki neitt.


Þetta gerðist í desember og svo er hægt að bæta við öllu því, sem skildi ekki eftir nein för, öllu því sem skiptir mig í dag engu máli.

Síðan í desember hefur hins vegar *ekkert* gerst. Ég er ekki skotinn í stelpu (allavegana ekki neinni, sem ég leyfi mér að vera skotinn í), ég hef ekki hitt neina stelpu, sem ég hef heillast af, enga til að hafa á heilanum. Ég hef hvorki reynt við stelpu á skemmtistað, né annars staðar. Ekki neitt. Það er engin stelpa í mínu lífi og ég hef ekkert gert til að breyta því. Það furðulega er að mér finnst það allt í lagi.

Ég er alltaf að fá spurninguna af hverju ég sé ekki á föstu. Hvernig á ég að svara? Hver er ástæðan?

Ég veit það ekki. Sennilega af því að í lífi mínu kemst ég ekki oft í kynni við nýtt fólk. Og ég get ekki myndað tilfinningatengsl við stelpur á skemmtistöðum. Bara get það ekki. Öllu mikilvægari er þó sú staðreynd að ég er líka hræddur um að stelpa muni neyða mig til að breytast í einhverja þá átt, sem mig langar ekki til að breytast. Ég er ekki fullkomlega sáttur þar sem ég er í dag og ég vil ekki að stelpa festi mig niður á þeim stað eða á öðrum stað, sem ég myndi ekki vilja vera á.

Með öðrum orðum, mig langar ekki að verða ástfangin af stelpu, sem langar svo að byrja að eignast börn og flytja í úthverfin. Ekki að það sé neitt að því. Ég er ekki svo mikill asni að gera lítið úr því. Það er bara ekki það, sem *ég* vil núna. Kannski seinna, hver veit? En *ekki núna*. Því velti ég því fyrir mér hverjar séu líkurnar á að hitta sæta stelpu á skemmtistað í Reykjavík, sem deilir með mér sömu ævintýraþrá, sömu þránni á að verða ekki gamall alveg strax? Stelpu, sem langar að prófa nýja hluti, búa á nýjum stöðum, sem langar ekki að festa sig niður á ákveðinn stað alveg strax.

Líkurnar eru sennilega ekki miklar.


En hver svo sem ástæðan er, þá hugsa ég minna um stelpur en áður. Ég er orðinn dálítið hræddur við að mér finnist það of þægilegt að vera single. Áður fyrr þá átti ég aldrei von á að vera single mikið eitthvað fram í tímann. Núna er ég að skipuleggja ferðalög uppá eigin spýtur marga mánuði fram í tímann.

Kostur a) væri alltaf að finna þessa stelpu, sem hugsaði svipað og ég, sem væri til í að breyta til, til í að gera nýja hluti. Hinir möguleikarnir eru að b) gera hlutina uppá eigin spýtur eða c) leyfa stelpu að breyta plönunum. Ég veit að möguleiki a) er sá besti, en ég er ekki viss um hvort ég vildi fórna b) fyrir stelpu. Þess vegna er ég pínulítið hræddur við að hitta stelpu og verða ástfanginn. Kannski er það hluti ástæðunnar.

Ég hef áður látið stelpur stjórna ansi miklu í mínu lífi. Hvert ég hef farið, hvað ég hef gert. Þess vegna er ég dálítið hræddur við að það gerist aftur.

En hvað sem það er, þá pæli ég minna í þessum málum.
Hef ekki jafn miklar áhyggjur. Er sáttari við það hver ég er. En það er samt pínu skrítið að vera ekki með neina stelpu á heilanum. Ég held að ég vilji ekki venjast því.