Gyðingar og Nasistar

Ég veit að ég er í minnihluta á Íslandi og er sennilega ósammála flestum lesendum þessarar síðu, en mér ofbauð þessi [ummæli](http://www.visir.is/?PageID=38&NewsID=35740) gagnvart Ísraelsríki:

>”Jónína segir mjög sláandi og óhugnanlegt að sjá múrinn sem Ísraelsmenn hafi reist. Hann sé 8-12 metra hár með varðturnum, myndavélum og inng?önguleiðum fyrir skriðdreka. Hún segist taka undir með Magnúsi Þór: **þetta minni á gettóin á tímum nasista.**”

Ríkisstjórn Ísraels hefur ansi margt á samviskunni. Landið hefur frá upphafi þurft að þola nágranna, sem vilja útrýma landinu. Undir þessum kringumstæðum hefur Ísraelslríki oft á tíðum brugðist við með alltof mikilli hörku. En að líkja aðferðum Ísraela við aðferðir Nasista er hins vegar óþolandi og á ekki að eiga sér stað í siðmenntaðari umræðu um málefni Ísraels og Palestínu. Ég hélt að íslenskir stjórnmálamenn væru nógu skynsamir til að sneiða hjá slíkum ummælum.

Það að bendla Ísraelsríki við Nasisma er mjög algengt bragð hjá þeim, sem verja málstað Palestínu af blindni. Þarna eru einstakar þjáningar Gyðinga notaðar gegn þeim og gefið í skyn að þeir séu í dag lítt skárri en Nasistarnir, sem stefndu að útrýmingu þeirra fyrir 60 árum.

Fyrir það fyrsta, þá hefur Jónína Bjartmarz ekki komið í nasistagettó og hefur því engan samanburð við heimastjórnarsvæðin nema úr bókum eða bíómyndum. Ég hef auðvitað komið á hvorugan staðinn. Hins vegar þá er það, að bera ástandið í gettóum nasista í seinni heimsstyrjöldinni saman við ástandið á sjálfstjórnarsvæðum Palestínu, hræðileg móðgun við alla Gyðinga. Það ber kannski ekki vott um gyðingahatur, en það ber svo sannarlega vott um ákveðna vanþóknun í garð Gyðinga.

Í Seinni Heimsstyrjöldinni þá vildu Nasistar *útrýma* Gyðingum. Fólkið úr gettóunum var sent í dauðabúðir, þar sem milljónir voru drepnir. Ástandið á sjálfstjórnarvæðum Palestínu er örugglega slæmt, en það kemst einfaldlega ekkert nálægt því ástandi, sem var undir stjórn Nasista.

Gleymum því ekki að það hefur ávallt verið yfirlýst markmið flestra nágrannaríkja að útrýma Ísraelsríki. Allar árásir Múslima á Ísrael hafa byggst á því að ráðast á venjulegt fólk til að reyna að drepa sem flesta. Þetta á bæði við hryðjuverk dagsins í dag, sem og árásir Arabaríkjanna í stríðunum eftir stofnun Ísraelsríkis. Ísrael hefur aftur á móti ráðist fyrst og fremst á hryðjuverkamenn og aðra, sem reyna að skaða ríkið. Framferði Ísraelsmanna í stríðum nágrannaríkjanna hefur best undirstrikað þennan mun.

Langflestir leiðtogar Arabaríkjanna vilja ekki sjá tvö ríki í Ísrael og Palestínu. Nei, þeir vilja sjá Palestínu, þar sem *Gyðingarnir hafa verið hraktir á brott*. Á því hefur enginn vafi leikið. Palestínumenn og þá sérstaklega Arafat hafa hafnað friðarumleitunum Ísraela og Bandaríkjamanna og hafa þess í stað efnt til hryðjuverka. Því að Arafat vissi vel að ef að hann myndi senda hryðjuverkamann til að sprengja upp diskótek fullt af ungmennum, þá gæti hann bókað að viðbrögð Ísraela yrðu mikil og hann gæti nýtt sér afleiðingar viðbragðanna til að auka stuðning við sitt fólk í Evrópu.

Íslenskir stjórnmálamenn, sem og aðrir (þar á meðal ég), mega gagnrýna Ísraelsríki en sú gagnrýni verður að vera byggð á einhverri sanngirni. Samanburðurinn við Nasista getur aldrei fallið undir það.

Nasistar stefndu að útrýmingu allra Gyðinga!
Enginn getur haldið því fram að það sama eigi við um Ísrael og Palestínu í dag. Því er allur samanburður úr lausu lofti gripinn.

Gyðingarnir í gettóunum fengu ekki að kjósa sér forseta. Þeir höfðu engin réttindi. Þeir stóðu ekki í friðarviðræðum við Nasistana. Það er ekki yfirlýst markmið Ísraelsmanna að útrýma Palestínumönnum og Palestínumenn eru ekki fluttir í útrýmingabúðir í þúsundatali. Hættum því að líkja Ísrael við Nasista! Það er ósmekklegt með eindæmum. Íslenskir stjórnmálamenn ættu ekki að leggjast svo lágt.

Já, Ísraelsríki hefur gert MÖRG mistök. Aðferðir þeirra, svo sem við byggingu múrsins og viðbrögð við hryðjuverkum, hafa oft á tíðum verið mjög slæmar. Ég hef mjöööög oft verið ósáttur við aðgerðir og orð Ísraela, alveg einsog ég var á móti Arafat og hans liði. Harðlínumenn á báðum hliðum eru slæmir.

EN, það gefur okkur *ekki* leyfi til að gera lítið úr þjáningum Gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni, með því að líkja því við ástandið í Palestínu í dag. *Það gerir lítið úr voðaverkum Nasista* og þeim Gyðingum, sem þoldu þau og *hjálpar ekki málstað Palestínumanna*.