Mögnuð skrif á Pólitík.is

Svo ég spyrji svona útí loftið: Er engin ritstjórn á Pólitík.is? Ég veit að ég gæti hringt í einn mann og fengið svar við spurningunni, en ég verð bara að fá að hneykslast opinberlega.

Á sú síða ekki að vera málefnalegt pólitískt vefrit á vegum Ungra Jafnaðarmanna? Ef svo er, af hverju fá þá svona greinar: [Dvergur hittir dverg](http://politik.is/?id=1182) að komast í gegn?

Greinin fjallar um átökin í Ísrael og Palestínu og það þarf engan speking til að sjá hverrar skoðunnar greinarhöfundur er. Hann er fullkomlega sannfærður um að Ísrael og Bandaríkin hafi ekki neitt nema slæmt fram að færa og því skrifar hann af þvílíkri fyrirlitningu fyrir leiðtogum og skoðunum þessara landa.

Greinin byrjar svona (feitletranir mínar):

>Í gær hitti **líkamlegi dvergurinn** Ariel Sharon **andlega dverginn** George W. Bush í arfaskógi þess síðarnefnda í Texas.

Í fyrsta lagi, hvað græðir greinarhöfundur á að gera lítið úr stærð Ariel Sharon eða gáfnafari George Bush? Varla er það ætlun hans að reyna að sannfæra þá óákveðnu í þessu máli, þar sem slík ummæli gefa varla í skyn að það sem á eftir fylgi sé skrifað af hlutleysi. Enda eru ummælin, sem fylgja í kjölfarið, ekki mikið málefnalegri eða til þess fallinn að efla málstað greinarhöfundar:

>Bush virtist gefa Sharon autt landakort og segja ,,gjörðu svo vel, taktu það sem þú vilt”.

>…

>Geta menn, sem hafa sannfært heimsbyggðina að þeir séu **geðveikir stríðsæsingamenn** (nú veit ég að **Gísli Marteinn og klíkan** er ekki sammála mér, en það er ekki hægt að gera öllum til geðs)

>…

>Af hverju er Bush allt í einu að banna **dvergunum frá Ísreal** að byggja meira og íta þar með undir ófriðarbálið?

>…

>Bandaríkin hafa það að mörgu leyti í hendi sér að koma á skikkanlegu ástandi milli Ísrael og Palestínu. Ég vona að þegar **dvergarnir** taka upp símann og hringja upp (**annar í gegnum Jesú, hinn er með beina línu**) þá verði þeim tilkynnt að ef þeir ekki hlusti í þetta skipti þá verði afleiðingarnar skelfilegar. **Guð kunni nefnilega líka dvergakast!**

Pólítísk vefrit eiga ekki að þurfa að sökkva oní slíkar lægðir að uppnefna andstæðinga sína. Það eru nóg málefnaleg rök til gegn stefnu Ísraelsríkis án þess að það þurfi að grípa til svona barnalegra ummæla. Ef þetta á að líðast á þessu vefriti, þá er ekki nokkur ástæða til þess að búast við öðru en að það muni hér eftir teljast gjaldgengt að gera grín að stærð eða ummáli íslenskra stjórnmálamanna í stað þess að nýta skrifin til þess að gagnrýna skoðanir þeirra á málefnalegan hátt.

[Þetta](http://politik.is/?id=1182) er ekki fyndið, þetta er ekki málefnalegt og þetta hæfir ekki opinberu vefriti Ungra Jafnaðarmanna!