Túristast um Varsjá

Leigubílstjórinn, sem keyrði mig að Kastalatorginu í morgun var ekki beinlínis yfirsig ástfanginn af Varsjá. Óspurður sagði hann að Varsjá væri “depressing city” og að þar væri ekkert að sjá. Ég veit ekki hvort ég er sammála honum, en þó hefur borgin yfir sér einkennilegan brag. Ég myndi sennilega ekki eyða mörgum dögum hérna sem túristi, en hún hefur vissulega uppá fullt af áhugaverðum hlutum að bjóða fyrir stutt ferðalag líkt og mitt.

Ég vann í morgun en var kominn út um hádegið. Fékk leigubíl til að keyra mig uppað gamla miðbænum. Sá miðbær var algjörlega eyðilagður eftir Varsjár uppreisnina við lok Seinni Heimsstyrjaldarinnar, en borgarbúar tóku sig til og endurbyggðu bæinn í sinni gömlu mynd eftir stríð. Sú endurbygging tókst svo vel að bærinn [er á lista Unesco](http://whc.unesco.org/pg.cfm?cid=31&id_site=30).

Miðbærinn er mjög heillandi. Ekki ósvipaður gamla miðbænum í Prag, þrátt fyrir að vissulega sé hann ekki jafn tilkomumikill. En byggingarnar bera þess engin merki að vera eftirlíkingar af þeim byggingum, sem þarna stóðu fyrir 200 árum.

Ég labbaði þarna um í góðan tíma, tók myndir og fylgdist með mannlífinu.


Labbaði því næst nokkur hundruð metra að minnismerki um [Varsjár uppreisnina](http://www.warsawuprising.com/) (Síðan, sem ég bendi á inniheldur mikið af góðum upplýsingum um uppreisnina, þar með talið myndefni. Mæli með henni ([The Pianist](http://www.thepianist-themovie.com/), sem er *frábær* bíómynd fjallar einnig um þessa atburði)). Uppreisnin fór fram 1944 þegar illa búnir Varsjárbúar réðust á þýska herliðið í borginni. Upphaflega gekk uppreisnin vel og bjuggust Varsjárbúar við að Sovétmenn, sem voru staðsettir í rétt fyrir utan borgina myndu hjálpa þeim. En Sovétmennirnir komu aldrei til hjálpar, heldur biðu þeir á meðan að Þjóðvernarnir drápu yfir 250.000 borgarbúa.

Pólverjarnir gáfust að lokum upp og voru sendir í fangabúðir. Eftir að allir Varsjárbúar voru farnir hófu Þjóðverjarnir kerfisbundna eyðileggingu borgarinnar. Engin bygging fékk að standa.

Því er dálítið merkilegt að labba þarna um miðbæinn. Varsjárbúar notuðust við allt, sem þeir gátu, til að endurbyggja borgina. Þannig að í húsunum sem standa þar í dag eru notaðir múrsteinar, sem voru grafnir uppúr rústunum eftir alla eyðilegginguna. Magnað til þess að hugsa. Það verður ekki hjá því komist að dást að dást að Pólverjum þegar maður hugsar til þess hvað þeir hafa gengið í gegnum.


Eftir að hafa labbað um miðbæinn rölti ég tilbaka í átt að hótelinu. Skoðaði minnismerki, sem hafði verið reist um Páfann og rölti meðfram aðalverslunargötunni.

Eldsnemma fyrramálið á ég flug til Stokkhólms, þar sem ég verð fram á sunnudagskvöld. Ætla að fá mér einn bjór á barnum á 40. hæð fyrir svefninn.

*Skrifað í Varsjá, Póllandi klukkan 21.11*