Norðurlöndin geta líka verð ágæt

Ég er kominn til Gautaborgar eftir tvo fína daga í Stokkhólmi. Stokkhólmur er æði – ekki láta fólk segja ykkur annað.

Ég veit ekki hver er ástæðan, en ég hef alltaf haft netta fordóma gagnvart Stokkhólmi og Svíum. Var sannfærður um að Stokkhólmur væri bara önnur útgáfa af Osló og að Svíar væru leiðinlegir. Jæja, ég get staðfest að Stokkhólmur er sko ekki Osló, svo mikið er víst.

Stokkhólmur er með fallegri borgum, sem ég hef heimsótt. Veðrið var æðislegt báða dagana og ég eyddi mestum tímanum í að rölta í sólinni um borgina. Í gær labbaði ég um gamla bæinn í rólegheitunum, horfði á vaktaskipti í konungshöllinni og slappaði svo af í Kungstragarden.

Í dag gerði ég meira af því sama. Kíkti reyndar á Vasa safnið, sem er byggt utan um gamalt herskip, sem fannst á hafsbotni fyrir um 50 árum. En fyrir utan þá safnaferð, þá eyddi ég tímanum í rólegheitunum á labbi um borgina og dáðist að fegurð hennar. Gamli bærinn og reyndar allir miðbærinn er ótrúlega fallegur.


Núna er ég kominn til Gautaborgar og sit hérna uppá hótelherbergi og reyni að berja saman kynningu, sem ég á að halda á fimmtudaginn. Á fundi hérna bæði á morgun og á þriðjudaginn, en á miðvikudag fer ég aftur til Stokkhólms á ráðstefnu. Er nokkuð viss um að þar verði kvöld prógramm, svo sennilega mun ég sjá eitthvað meira af Stokkhólmi. Allavegana, þá er borgin vel virði heimsóknarinnar.

*Skrifað í Gautaborg, Svíðjþóð klukkan 21:42*