Er sjónvarpið toppurinn?

Ég veit, ég veit!

Allavegna á heimasíðu [Ungfrú Íslands](http://www.ungfruisland.is/ungfru.php?lang=is&visible=2) eru viðtöl við keppendur. Einsog ég hef [fjallað um](https://www.eoe.is/gamalt/2005/04/06/22.04.00/index.php), þá eru stelpurnar í einni spurningunni beðnar um að lýsa **fullkomnum** laugardegi. Kannski er það bara ég, en mér þykir hugmyndir stelpnanna um hinn **fullkomna** laugardag vera afar óspennandi.

Sem dæmi:

– Sjö stelpur ætla að eyða hinum **fullkomna** degi í *líkamsrækt*. Ég fer í ræktina á hverjum virkum degi, en það er nú ekki *svo* gaman í ræktinni að maður myndi eyða hinum fullkomna degi þar.

– Sjö þeirra ætla að horfa á *sjónvarpið*

– Ein ætlar bara að borða nammi, og önnur ætlar bara að borða nammi og horfa á sjónvarpið.

Ég ætla alls ekki að gagnrýna stelpurnar fyrir að hafa svona mikinn áhuga á sjónvarpi. Eeeen, er þetta virkilega hinn fullkomni laugardagur í augum tvítugra íslenskra stelpna? Hefur fólk ekki meira ímyndunarafl? Vill það ekki vera úti? Gera eitthvað meira spennandi? Ég er viss um að ef sambærileg könnun yrði tekin í öðrum löndum, þá myndi fólk vilja gera eitthvað annað. Ég er fullkomlega sannfærður um það. Er það draumalífið á Íslandi að hanga inni og horfa á sjónvarpið? Ég ætla ekki að rembast við að fela það að ég horfi á talsvert á sjónvarpi og skammast mín ekkert fyrir það. En ef ég ætti að ímynda mér draumadaginn, þá myndi sjónvarpið ekki koma mikið við sögu (í sögunni minni, þá var sjónvarp bara þarna til að koma Liverpool að)

En út frá þessu reyndi ég að átta mig á því hvernig draumadagurinn minn á Íslandi yrði. Ef ég ætti kærustu og ætti að eyða deginum hérna í höfuðborginnil, hvernig væri þá draumadagurinn? Er kannski ekkert meira spennandi að gera hérna heldur en að horfa á sjónvarp? Ég veit að samanburðurinn er ósanngjarn, en í Chicago, Caracas eða Mexíkó borg, þar sem ég hef búið, eyddi ég bestu dögunum í almenningsgörðum, í miðbæjum eða á dansstöðum. Slíkir möguleikar eru varla fyrir hendi hérna.

Fólk í kringum mig vill oft eyða laugardagskvöldi heima, horfandi á sjónvarpi. Ég hef oftast túlkað það sem leti, þar sem mér finnst það viss uppgjöf að horfa á sjónvarp *líka* á laugardögum, þar sem fólk horfir oftast á sjónvarp alla aðra daga. En kannski er þetta bara toppurinn. Kannski dettur fólki ekki neitt skemmtilegra í hug. Ég held að ég hafi aldrei hafnað því að fara út, bara til þess að vera heima og horfa á sjónvarpið, en hins vegar hafa aðrir hafnað því að gera eitthvað með mér vegna þess að sjónvarpsgláp hafði verið ákveðið. Ég kýs að taka þetta ekki persónulega, þannig að spurningin er hvort ég sé svona öðruvísi en aðrir? Er það bara mér sem finnst sjónvarpsgláp vera óspennadi kostur, eða eru aðrir á sömu skoðun og ég? Býður lífið ekki uppá eitthvað meira spennó, eða er sjónvarpsgláp partur af hinum fullkomna degi íslenskra ungmenna?

Annars eru hérna samantekt á fullkomnum laugardögum að mati stelpnanna:
Continue reading Er sjónvarpið toppurinn?