Dagur í lífi

Miðað við að ég vaknaði með þynnkuhausverk klukkan 8 í morgun, þá hefur þetta verið ansi indæll dagur. Þegar ég vaknaði hafði ég rænu á því að fara fram úr og fram á klósett, þar sem ég fékk mér tvær exedrin og fór aftur að sofa.

Vaknaði svo um 11 leytið, án hausverks. Fór í föt, setti iPod-inn í vasann og fór útí göngutúr. Vesturbærinn er æðislegur á svona sunnudagsmorgnum, þegar veðrið er jafn frábært og það hefur verið í dag. Labbaði um hverfið mitt og svo niður á höfn, þar sem ég fékk mér hamborgara á búllunni. Rölti svo niður í miðbæ í góða veðrinu.


Gærdagurinn var góður. Eyddi stærstum parti dagsins að hjálpa vini mínum að flytja. Hann er að flytja úr Reykjavík í Kópavog. Hann og kærastan hans búa núna nánast uppá Vatnsenda. Það er alveg ferlegt (fyrir mig), þar sem það er löööng keyrsla þangað úr Vesturbænum, en það reddast þó. Við kláruðum flutningana á skömmum tíma og fengum okkur svo pizzu og bjór.

Í gærkvöldi fór ég svo með vinum mínum á Maru. Það er ágætis staður fyrir utan það að réttirnir eru alveg hreint með ólíkindum litlir. Eftir súpu og aðalrétt var allur hópurinn enn sársvangur, svo við gripum á það ráð að fara á Apótekið í desert. Eftir það fórum við á Kaffibrennsluna. Eftir að hafa setið þar inni til miðnættis fóru óléttir einstaklingar í hópnum heim, en við sem eftir sátum vorum allir orðnir svangir aftur. Þannig að við röltum yfir á Purple Onion, nýjan stað, sem ég vildi endilega prófa. Reyni að gefa öllum veitingastöðum allavegana einn sjens.

Allavegana, staðurinn er þar sem Nonnabiti var einu sinni. Að sögn gaursins, sem var að afgreiða þá eru eigendurnir tveir. Það er gaurinn, sem var að afgreiða, sem er frá Jórdan og svo annar frá Litháen. Það er einmitt ástæða þess að á matseðlinum er helmingurinn af matnum frá Mið-Austurlöndum en hinn helmingurinn er rússneskur. Yndislega skrítin blanda. Allavegana, prófuðum Shawarma, sem var ágætt. Hef fengið 10 sinnum betri Shawarma, en ég er bara svo ánægður að fá svona stað að ég var jákvæður. Mæli með að fólk gefi þessum stað sjens. Mér finnst það allavegana frábært að strákur frá Jórdan reki veitingastað í Hafnarstræti.


En allavegana, fórum svo uppá Vegamót, þar sem við vorum næstu klukkutíma. Þar var ágætt. Reyndar er einsog íslenskir karlmenn hafi bara gefist upp og séu búnir að gefa eftir íslenskt næturlíf til útlendinga. Svona 60% karlmannana þarna inni voru útlendingar, stór hluti greinilega partur af einhverjum hóp.

Við vinirnir vorum þarna inni til klukkan 3 þegar við ákváðum að fara heim. Þegar ég rölti heim hugsaði ég til þess hversu gáfulegra það væri að byrja fyrr á djamminu og vera búinn að klára sinn skammt klukkan 3 í stað þess að vera þá að mæta í bæinn. Þessi breyting á opnunartíma skemmtistaða, sem ég hélt einu sinni að væri alger snilld, er hræðileg hugmynd. Í stað þess að maður geti farið á djammið og gert eitthvað daginn eftir, þá keyrir fólk sig algerlega út til klukkan hálf sjö inná skemmtistöðum og eyðir svo næsta degi í eymd og volæði langt fram eftir degi. Væri ekki nær að byrja frekar fyrr og vera búinn að klára skammtinn sinn klukkan tvö?