Ný heimasíða

Jæja, þá er ég loksins búinn að klára heimasíðuverkefnið, sem ég tók að mér fyrir nokkrum mánuðum. Síðan er fyrir [fyrirtækið](http://www.danol.is/), sem ég vinn hjá dags daglega.

Útlitið er reyndar ekki hannað af mér, heldur af spekingunum í Vatíkaninu, sem er auglýsingastofan, sem ég vinn langmest með í vinnunni. Ég fékk útlitið í hendurnar fyrir ansi mörgum vikum, en hef dregið það lengi að klára síðuna. Aðallega vegna þess að ég er í fullri vinnu, á auk þess veitingastað og reyni að eiga líf fyrir utan þessa tvo hluti, þannig að það var ekki auðvelt að smella heimasíðugerð þar á milli. En allavegana, þið getið skoðað [síðuna](http://www.danol.is). Þar er m.a. þessi [ljómandi skemmtilega](http://www.danol.is/starfsfolk/004286.php) mynd af mér. Ég þarf að reyna að brosa oftar á myndum. Hef verið alltof alvarlegur hingað til. Glotti í mesta lagi. Jamm


Samkvæmt [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/), þá hlustaði ég 277 sinnum á Eels í síðustu viku. Það tel ég vera prýðis árangur. Það var kominn tími til að einhver færi að gefa Dylan smá samkeppni. Eels og Neil Young koma þar sterkir inn.