Ég verð að eignast nýjan síma!

Fokk, mig er farið að langa í nýjan síma!

Ég hef með ágætu móti getað bælt þessa stanslausu löngun mína í ný tæki í smá tíma. Keypti mér [svona síma](http://www.mobile-review.com/review/samsung-e700-en.shtml) fyrir 16 mánuðum af því mér fannst hann svo ógeðslega flottur á þeim tíma. Með einhverjum ráðum hefur mér tekist að eiga þennan síma í 16 mánuði, sem er sko stórkostlegt nýtt met því ég er vanur að týna eða eyðileggja síma á svona 6 mánuða fresti.

Allavegana, ég hef verið nokkurn veginn í rónni þangað til að ég sá auglýsingu fyrir [MotoRazr](http://direct.motorola.com/ens/web_producthome.asp?Country=USA&language=ENS&productid=29302). Hólí fokk, hvað það er flottur sími. Finn hjá mér alveg óstjórnandi þörf fyrir því að eignast svona síma núna strax. Er fullviss um að líf mitt verði innihaldsríkara bara ef ég kaupi mér svona síma.

Ég var reyndar búinn að sjá þetta fyrir. Fyrir svona tveim vikum (áður en ég sá auglýsinguna, nota bene), þá missti ég símann minn í gólfið inní vinnu. Hann smallaðist í nokkra bita, en mér tókst að setja hann saman aftur. Það virkaði ágætlega fyrstu vikuna, en núna er einsog síminn minn sé með fokking holdsveiki. Hinir ýmsu hlutir detta af honum í tíma og ótíma. Í dag datt tildæmis volume takkinn af og núna get ég ekki stjórnað því hversu hátt fólk talar í símann við mig, heldur verð ég actually að biðja fólk um að tala hærra eða lægra. Sem er ekki gott.

En það myndi allt lagast með þessum [nýja síma](http://direct.motorola.com/ens/web_producthome.asp?Country=USA&language=ENS&productid=29302). Hann er svo flottur að ég verð beinlínis að fá fólk til að hringja í mig með reglulegu millibili á laugardagskvöldum, svo ég get tekið hann upp og talað í hann á Oliver, Hverfis eða hvaða stað sem ég verð á. Ég er viss um að stelpurnar eiga eftir að fríka út þegar þær sjá mig tala í þennan síma. Þar sem ég keyri um á þriggja ára gamalli Almeru, þá get ég ekki sjarmerað stelpur með flottum bíl. En ég á þá allavegana flottan síma.

Jamm, líf mitt verður skemmtilegra, fjölbreyttara og meira spennandi ef ég kaupi þennan síma.

Eða hvað? Er þetta kannski drasl sími? Talar einhver af reynslu?