Vinnupartý og útilegur

Mér finnst vanalega alveg óstjórnlega leiðinlegt að keyra. Ég keyri fram og aftur úr vinnu nánast í einhverju móki, alveg hugsanalaust. Gleymi mér oft þegar ég ætla að fara uppá Serrano á leiðinni heim og er kominn hálfa leið í Vesturbæinn þegar ég átta mig á hlutunum. Er svo vanur að fara sömu leið alveg án þess að hugsa, að öll tilbreyting veldur nánast uppnámi.

En einstaka sinnum er gaman að keyra. Einsog t.d. í kvöld. Var að keyra frá Hellu og í bæinn. Einn í bíl, með iPod-inn minn í eyrunum í æðislegu veðri með sólina í andlitið. Fannst einhvern veginn allt svo fallegt í kringum mig. Sami vegur og ég hef keyrt svo oft áður, en stundum er einfaldlega gaman að vera í bíl á 100 90 kílómetra hraða.


Þetta er búin að vera góð helgi. Ég var með starfsmannapartý hérna á fimmtudagskvöld og það var frábært, einsog vanalega. Ég veit að auðvitað er maður að halda starfsmannapartý *fyrir* starfsfólkið, en ég hef bara svo ótrúlega gaman af þeim líka. Maður lærir líka svo margt. Flestar stelpurnar eru of feimnar til að segja manni merkilega hluti í vinnunni, en í partýjunum þá losna þær við feimnina.

Ég fór svo í bæinn. Labbaði með tveim stelpum á meðan að flestar fóru á bílum. Fór með þeim á Gauk á Stöng. Þar sem ég er *orðinn tvítugur* var ég ekki alveg að fíla mig þarna inni. Spilaði púl við eina stelpuna, en svo ákváðum við að fara á aðra staði. Fórum og borðuðum á Purple Onion, löbbuðum svo uppá Café Oliver þar sem við vorum til lokunnar. Enduðum svo á Hverfisbarnum.

Á leiðinni heim um klukkan hálf sjö var komin glampandi sól og yndislegt veður í bænum. Þegar ég labbaði framhjá tjörninni hitti ég nokkra Ástrala, sem voru þar samankomnir og voru að reyna að sannfæra hvort annan um að fá sér sundsprett í tjörninni. Eftir smá umræður ákváðu þeir allir að stökkva í ískalda tjörnina. Eftir smá umhugsun ákvað ég að fylgja ekki á eftir.


Í dag fór ég svo í útilegu með hinni vinnunni minni. Þetta var fjölskyldu útilega, svo ég ákvað að gista ekki, en fór þess í stað í morgun og er búinn að vera þarna í allan dag. Var að koma heim áðan og er einsog karfi í framan. Veðrið var æði og ég borðaði yfir mig af grillmat. Maður getur ekki beðið um meira.

Í kvöld ætla ég svo að taka því rólega, klára að lesa Angels & Demons og njóta þess að sofa út á morgun. Vonandi verður morgundagurinn góður.