Hinn íslenski bachelor

Ok, semsagt þá er það orðið opinbert að þessi íslenski Bachelor þáttur er að [hefja göngu sína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/19/15.59.12). Almenningur spyr sig því sennilega: “Hvað segir Einar Örn um þetta mál?” Jæja, ég verð að svara því.

Ég átti smá umræður um þetta mál við frænku mína í dag og við vorum sammála um að þátturinn hljóti að lenda í ákveðnum erfiðleikum.

Í sjálfu sér lýst mér alveg ljómandi vel á hugmyndina og ég held að þetta verði stórkostlegt sjónvarpsefni, sem mun valda því að kjánahrollurinn hjá manni mun ná nýjum hæðum, sem ekki einu sinni verulega slæmur þáttur af Djúpu Lauginni getur valdið.

Ég sé þó fyrir talsvert af vandamálum varðandi þáttinn. Ég finn ekki Mogga umfjöllunina á netinu, þannig að ég verð bara að vitna í prentútgáfuna (ekki spyrja mig af hverju ég er áskrifandi af Mogganum, ég ber við varanlegu stundarbrjálæði).

Planið hjá Skjá Einum er semsagt að fara í Idol túr um landið, þar sem þeir ætla að taka viðtöl við stráka og stelpur, sem hafa áhuga á að vera í þættinum. Eflaust munu svo S1 menn leita til einhverra aðila, sem sækja ekki um. Ég efast nefnilega um að fólkið, sem S1 vilja sjá í þættinum sé sama fólkið, sem myndi bíða í biðröð fyrir utan eitthvað hótel til að komast í viðtal.

Viðtölin verða haldin á Akureyri, *Selfossi*, Egilsstöðum, Ísafirði, Akranesi, Sauðárkróki og í Reykjavík. S1 munu svo nýta sér þessi viðtöl sem efni í fyrstu þættina. Þannig að ef þú sækir um og kemst ekki í þáttinn, þá gætirðu samt lent í sjónvarpinu, sem einn af lúserunum í fyrstu þáttunum. Þetta er öðruvísi en bandaríska útgáfan.

Allavegana, ætlunin er að velja einn piparsvein og **25 einhleypar íslenskar stelpur** í þáttinn. Samkvæmt S1 þarf piparsveinninn þarf að vera:

>fallegur jafnt að utan sem innan og þarf að vera virkilegt eiginmannsefni sem allar konur vilja. Hann þarf að vera á aldrinum 21 til 35 og einhleypur. Hann má gjarnan vera í góðri stöðu og hafa góð og heilbrigð markmið og líffskoðanir.

Glöggir menn sjá eflaust að þessi lýsing passar alveg ískyggilega vel við mig (mætti kannski bæta við hógvær). Svo er það tekið fram að stelpurnar eigi að uppfylla svipuð skilyrði.

Ok, fyrsta spurning: Hvar ætla þeir að finna 25 myndarlegar og klárar konur á þessum aldri, sem eru í góðri stöðu og *á lausu*? Gleymum því ekki að þetta *er* Ísland. Í öðru lagi, hvernig ætla þeir að finna 25 slíkar konur, sem *vilja koma fram í sjónvarpinu* í svona þætti? Þetta verður skrautlegt.

Sko, meira að segja í bandaríska þættinum þá er slatti af stelpum, sem eru ekkert alltof myndarlegar (án professional förðunar) og eru hálf skrítnar. Í þeim þætti er hins vegar verið að velja fólk úr 280 milljón manna þjóð og framkoma í þættinum getur þýtt gríðarleg tækifæri. Hérna er hins vegar verið að velja fólk úr 280.000 manna þjóð og framkoma í þættinum mun sennilega þýða opnuviðtal í Séð & Heyrt og fullt af fullum vitleysingum að bögga þig á djamminu. Ég sé bara ekki hvernig þetta gengur upp.

Ég þekki nokkrar álitlegar stelpur, sem eru á lausu. Ég þori hins vegar að veðja að þær vilja ALLS, ALLS ekki láta líta út fyrir sem svo að þær séu nógu desperate til að fara í þáttinn. Þær vilja allar láta líta út sem svo að þær þurfi ekki karlmenn og að ef þær lendi með karlmönnum, þá sé það bara tilviljun en ekki vegna þess að þær séu að reyna eitthvað.

Ef þær færu hins vegar í hinn íslenska Bachelor, þá væru þær að viðurkenna að þær séu tilbúnar til að gera ansi margt til að ná sér í karlmann. Þar sem þær munu taka þessa ákvörðun ódrukknar, þá efast ég um að margar myndarlegar og klárar stelpur muni taka þátt í þættinum. Langar stelpum að vera “stelpan, sem var rekin í burt af íslenska bachelornum” og þola það að allir horfi á sig á Hverfisbarnum og komi svo með mis-sniðug komment? Ég held ekki.

Ætli þetta verði ekki aðallega sterkt útá landi? Og þetta segi ég án nokkurar óvirðingar við landsbyggðina. Það virðist bara vera svo sem að til dæmis Djúpa Laugin sé miklu vinsælli meðal landsbyggðarfólks heldur en fólks af höfuðborgarsvæðinu. En kannski er ég bara svona neikvæður og öllum finnnst þetta vera voðalega sniðugt.

En hvernig sem gengur, þá mun ég horfa á hvern einasta þátt. Ef að það kemur í ljós að það er fullt af einhleypum, myndarlegum og klárum stelpum, sem keppast um að komast í sjónvarpið, þá mun það gleðja mig mjög.

Þetta verður allavegana fróðlegt.