Iceland Express og DV

Hvaða bjánaskapur er þetta eiginlega?: [Iceland Express hættir sölu á DV og Hér & nú](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1146365)

Ég nenni ekki að blaðra um þetta Hér og Nú mál. [Stefán Pálsson](http://kaninka.net/stefan/012779.html) og [Badabing](http://www.badabing.is/arc/002755.html#002755) fjalla skemmtilega um það mál. En mikið afskaplega finnst mér þetta nú hallærislegt hjá Iceland Express.

Hvaða tilgangi þjónar þessi ritskoðun Iceland Express? Þeir eru að takmarka úrval í flugvélunum sínum en ákveða samt að auglýsa það upp í Morgunblaðinu. Hver er tilgangurinn með því? Eru þeir að reyna að skora stig hjá almenningi með því að vera flugfélag, sem er á hærra siðferðislegu plani en flestar matvöru- og bókabúðir í landinu?

Talsmaður IE segir:

>Birgir segir að Iceland Express selji vel yfir tvö þúsund eintök af DV á mánuði. “Farþegar okkar hafa enga valkosti um hvort þeir sjá forsíðuna eða ekki þar sem gengið er með blaðið um gangana. Við viljum þá frekar selja vöru sem fólki líkar betur og er þar af leiðandi betri fyrir okkur,

“viljum þá frekar selja vörur sem fólki líkar betur”!!! Tvö þúsund manns keyptu DV af Iceland Express af fúsum og frjálsum vilja, en nei nei, núna vilja IE bara selja fólki blöð, sem fólkinu sjálfu “líkar betur” við. Hvað voru þessir 2000 einstaklingar, sem keyptu DV, eiginlega að spá? Var þetta fólk að kaupa blað, sem því líkar illa við? Þetta er einhver allra mesta vitleysa, sem ég hef lesið.

Með þessu fordæmi er Iceland Express að fara inná afar vafasama braut ritskoðunnar, með því að selja einungis efni, sem að eigendunum líkar við, ekki efni sem fólkið vill kaupa. Þekkt dæmi um svipað athæfi frá útlöndum er til dæmis sú ritskoðun, sem [Wal-Mart stendur fyrir á geisladiskum og annarri vöru í sínum búðum](http://www.pbs.org/itvs/storewars/stores3_2.html#censor). Sú ritskoðun fer fram með nákvæmlega sömu formerkjum, það er að Wal-Mart þykist vera að gera það, sem að viðskiptavinirnir vilja. Sem er náttúrulega tómt bull. Eflaust er einhver hópur viðskiptavina, sem fer í fýlu yfir því að sumir hlutir séu til sölu, en það er ekki hægt að réttlæta ritskoðun með því. Ég vil til að mynda helst ekki að Man U bolir séu til sölu í búðum, en það myndi engum verslunum detta í hug að hætta að selja þær treyjur bara vegna þess að ég fæ sviða í augun þegar ég sé þær treyjur inni í versluninni.

Iceland Express er ekki að gera þetta til hagsbóta fyrir sína viðskiptavini. Svo einfalt er það. Ég vona að fólk sjái þetta bara fyrir það, sem það er í raun. Flugfélag ritskoðar það, sem það selur, og reynir svo að nýta sér ritskoðunina sér til hagsbóta með því að þykjast vera einhverjir sérstakir siðferðispostular.