Leiðinlegasta sumarveður í heimi

Ég er vanalega ekki mikill svartsýnismaður, en þetta veður hefur alveg stórkostleg áhrif á mig. Veðrið fer nær aldrei í taugarnar á mér á veturna. Mér er alveg sama þótt að veturnir séu harðir. Hins vegar vil ég hafa almennilegt sumarveður, þar sem ég get verið úti á stuttermabol, get labbað um bæinn án þess að fjúka og get grillað án þess að blotna.

Ég lýsti í síðustu færslu eftir hugmyndum að því hvort það væri eitthvað land í heimi, sem þyrfti að þola jafn ömurlega leiðinlegt sumarveður og við Íslendingar. Einhverjar tillögur komu, til dæmis Grænland, Falklandseyjar, Bhútan og Mongólía.


Ég ákvað að skoða þetta aðeins betur og fletta upp veður-upplýsingum frá þessum stöðum og bera saman við Reykjavík. Það er auðvitað ekki hægt að bera saman veðurfar í heilum löndum, þannig að ég miða við höfuðborgir. Niðurstöðurnar eru magnaðar:

Hérna er meðalhitinn í Reykjavík. Meðalhitinn í besta mánuðinum, Júlí, er Júlí með heilar 13 gráður.

Ok, hvaða staðir koma þá til greina sem kandídatar fyrir leiðinlegasta sumarveður í heimi? Prófum höfuðborgina í Mongólíu. Nei, meðalhitinn þar í besta mánuðinum er 22 gráður. Hvað með Moskvu? Nei, hitinn er líka 22 gráður í heitasta mánuðinum þar, langt yfir Íslandi. Wellington á Nýja Sjálandi? Neibbs, hitinn er 19 gráður í bestu mánuðinum. En Alaska (teygjum þetta aðeins, líkt og Alaska væri sér land)? Veðrið hlýtur að vera verra þar! Ha? Neibbs, hitinn í besta mánuðinum þar er 18 gráður.

Í örvæntingunni minni þá ákvað ég að prófa Grænland og leitaði uppi meðalhitann í Narsarsuaq (það eru ekki til upplýsingar um Nuuk). Og vitiði hvað?

MEÐALHITINN Í NARSARSUAQ Á GRÆNLANDI ER HÆRRI EN Í REYKJAVÍK!!!

Meðalhitinn í Narsarsuaq í júlí er 14 gráður, eða 1 gráðu hærri en í Reykjavík. Þetta er hreinasta sturlun!

Þannig að með öðrum orðum, þá get ég ekki fundið land með verra sumarveður en Ísland!

Hvernig getum við mögulega verið hamingjusamasta þjóð í heimi þegar að við erum með leiðinlegasta sumarveður í heimi? Eru allir nema ég á prozac?


Uppfært (EÖE): Ágúst Fl. er með svipaðar pælingar á sinni heimasíðu og hann kemst að sömu niðurstöðu og ég.