Nýja Sigur Rósar platan

Ok, til að byrja með ætla ég að heita einu: Ég skal lofa því að ég ætla að kaupa nýju Sigur Rósar plötuna útí næstu Skífubúð þegar hún kemur út. Ok? Ég lofa.


Ég gjörsamlega get ekki skilið plötufyrirtæki. Nýja Sigur Rósar platan, Takk, kemur út 12. september. Ef ég ætlaði að vera heiðarlegur og versla bara við plötufyrirtæki, þá þyrfti ég semsagt að bíða í mánuð í viðbót eftir því að fá að hlusta á plötuna.

En hvernig á ég að geta gert það þegar ég veit að það tekur mig svona 5 mínútur að nálgast fullkomið eintak af plötunni ókeypis á netinu? Ég elska Sigur Rós. Þeir tónleikar, sem ég hef farið á með hljómsveitinni hafa verið með [bestu tónleikum ævi minnar](https://www.eoe.is/gamalt/2003/11/06/23.18.29/). Ég man enn skýrt eftir því þegar ég heyrði Popplagið í fyrsta skiptið á ævinni á tónleikum í Chicago. Ég hef sjaldan verið jafnhrifinn.

Síðasta platan endaði einmitt á Popplaginu og því hef ég verið fáránlega spenntur yfir því að hlusta á nýjustu plötuna. Ég væri til í að borga sanngjarnt verð fyrir að eignast hana strax í dag. Fokk, ég væri ábyggilega til í að borga ósanngjarnt verð fyrir hana í dag. Svo spenntur er ég að hlusta á hana. En hvers vegna gera plötufyrirtækin mér svona erfitt fyrir? Af hverju er ekki hægt að kaupa plötuna útí búð eða á netinu *núna*?

Ég vissi að á endanum myndi ég ekki geta staðist freistinguna. Ég varð hreinlega að ná mér í plötuna strax. Ég get ekki beðið í einn mánuð vitandi af því að hún *er þarna* á netinu. Það geta allir með internet tengingu náð sér í plötuna á ólöglegan og ókeypis hátt. En þeir, sem vilja vera heiðarlegir þufa að bíða í mánuð í viðbót. Það er hreinlega ekkert vit í þessu.

Allavegana, ég gat ekki staðist freistinguna og náði mér í plötuna með BitTorrent. Kaupi svo diskinn þegar hann kemur út, þar sem að útgáfan á netinu er bara 192kb MP3 skrá, sem er ekki alveg nógu gott. Og við fyrstu tvær hlustanir, þá er hún allt, sem ég vonaðist til. Hljómar alveg yndislega. Ég get ekki sagt almennilega hvernig hún verður eftir nokkra daga, en allavegana þá mun hún fá að njóta sín næstu kvöld. Ef eitthvað er, þá hljómar hún betur en ( ) til að byrja með.