Mið-Ameríkuferð 7: Ég og Brad Pitt

Það eru nokkrir hlutir sem brenglast við ferðalag í rómönsku Ameríku. Fyrir það fyrsta þá brenglast tónlistarsmekkur minn og ég fer ósjálfrátt að syngja með hræðilega væmnum slögurum, eða þá að hreyfa fæturnar þegar einhver hræðileg danstónlist byrjar. Tímaskyn mitt brenglast, sérstaklega þegar ég er í svona rólegum smábæjum einsog Livingston og hefur ekkert sérstakt að gera nema láta tímann líða í hengirúmi, lesandi bækur.

Svo brenglast auðvitað sjálfsálitið. Allavegana hjá mér. Ef ég ætti að dæma eingöngu af viðbrögðum, kommentum og öðru frá kvenfólki hér, þá lít ég út einsog fokking Brad Pitt. Kannski er það rétt, kannski er ég jafn myndarlegur og hann og virka alveg jafnspennandi og hann fyrir öllu kvenfólki. En misjöfn viðbrögð kvenfólks á Íslandi í gegnum tíðina hafa þó barið inní hausinn á mér þá hugsun að við séum ekki alveg jafnir.

En ég veit þó allavegana að ég mun koma heim til Íslands fullur af sjálfstrausti. Mið-Amerískar og mexíkóskar stelpur hafa séð til þess.


Á ég að nefna nokkur dæmi bara frá síðustu dögum? Það kom uppað mér stelpa í fyrradag og hennar fyrstu orð voru þau að ég væri geðveikt sexí! Bara hæ og svo sexí kommentið. Þegar ég var smá hissa, þá spurði hún hvort ég fílaði ekki svartar stelpur? Ég sagðist fíla stelpur af öllum kynþáttum, en væri að bíða eftir annarri stelpu. Hún gafst þó ekki upp og vildi endilega hitta mig á skemmtistað um kvöldið.

Á skemmtistaðnum um kvöldið voru fjórar stelpur að reyna við mig á fullu (auk tveggja klæðskiptinga – ég er dýrkaður í þeim hópi!). Allt kvöldið! Það hefur ekki verið reynt jafnoft við mig á einu kvöldi frá því að ég fór á hommaklúbb í London.

Í Mexíkó, þá var ég á Museo de la Antropologia þegar að stelpa kemur uppað mér og spyr “puedo tomar foto?” Ég hélt að hún vildi að ég tæki mynd af henni og vinkonu hennar, svo ég sagði: “si, como no”. Nei, þá kemur hún uppað mér og stillir sér upp með mér, á meðan að vinkona hennar tók mynd af *okkur*. Ekki nóg með það, heldur 10 mínútum seinna þá kemur hin vinkonan að mér og vill fá *mynd af sér með mér*. Magnað, ekki satt?

Á síðustu fjórum-fimm dögum (þegar ég hef verið að labba einn, ekki með Anju), þá hafa að minnsta kosti 3 stelpur sagt við mig “Hola bello”, eða “Hola mi amor”. Bara ókunnugar stelpur, sem ég labba framhjá á götunni. Auk svo allra sem bara horfa og brosa. Oftar en einu sinni hef ég gengið framhjá vinkonuhópum, sem hafa byrjað að tala um hvað ég er sætur. Auk þess að gera mig meira heillandi í augum stelpna, þá hefur ljósa hárið líka þau áhrif að allir halda að ég skilji ekki orð í spænsku.

Sumir segja að þetta sé ljósa hárið, en ég segi að þetta hlýtur að vera skeggið. Í fyrsta skipti á ævinni er ég að safna skeggi. Það verður reyndar að viðurkennast að þetta er ekki tilþrifamikil skeggsöfnun, enda hef ég verið meðvitaður um takmarkaðan skeggvöxt minn í gegnum tíðina. En ef þú kemur nálægt mér, þá sérðu að þarna eru hár, svo ég held því fram að það sé ástæðan fyrir þessum vinsældum.

En samt, þá verð ég að viðurkenna að ég hef lúmskt gaman af þessari athygli. Skil ekki stelpur, sem kvarta yfir því að það sé verið að horfa á þær. Geta þær ekki bara tekið þessu sem hrósi?

En ég geri mér þó áfram grein fyrir því að nokkur kvöld á Ólíver, Vegamótum eða álíka stöðum heima mun koma mér kyrfilega niður á jörðina aftur. Þá mun jafnvægi í heiminum vera komið á aftur.

🙂


Hey, ég hef gert svo lítið undanfarna daga (fyrir utan að skemmta mér og lesa) að ég hafði ekkert annað til að skrifa um. Er enn að bíða eftir ferðafélaga mínum og svo er planið að fara í bátsferð upp Rio Dulce ána í fyrramálið. Svo þokast í átt að Tikal og þaðan upp til Belize.

*Skrifað í Livingston, Gvatemala klukkan 11.40*