Mið-Ameríkuferð 9: Caye Caulker (uppfært)

[Belize](http://en.wikipedia.org/wiki/Belize) er lítið, skrítið land. Síðan að Mið-Ameríkulýðveldið lagðist undir lok og ríkin skildu, hefur Gvatemala aldrei sætt sig almennilega við fyrirbærið Belize. Á landakortum í Gvatemala er Belize oft sett inn sem hluti af Gvatemala, þrátt fyrir að það sé í dag sjálfstætt land.

Bretar réðu yfir Belize aðallega vegna þess að enginn annar nennti að ráða yfir þessu fámenna landi, sem bjó ekki yfir miklum náttúruauðæfum. Gvatemalar sömdu svo um að láta Bretum þetta land eftir með því loforði að Bretar myndu byggja veg á milli Belize borgar og Gvatemala borgar. Semsagt, land fyrir hraðbraut. Málið er að vegurinn var aldrei byggður og því hafa Gvatemalar aldrei sætt sig við Belize, þrátt fyrir að landið sé núna sjálfstætt.

Belize er eitt af fáum löndum, sem ég hef heimsótt, sem er fámennara en Ísland en hér búa um 260.000 manns. Flestir tala ensku, eða ansi skrítnar mállískur af ensku, sem ég get ómögulega skilið.

Lífið hérna á Caye Caulker hefur verið ansi rólegt og nice. Við höfum tekið því afskaplega rólega hérna undanfarna daga á ströndinni eða í hengirúminu fyrir utan hótelið okkar. Áttum að fara í köfun í dag, en ekki hafa fengist nægilega margir í hópinn, þar sem að túristatímabilið er ekki byrjað og því afskaplega fáir túristar á eyjunni.

Vonandi komumst við þó á morgun eða á miðvikudag. Ef við komumst ekki að kafa Bláu Holuna, þá munum við kafa að kóralrifum, sem eru nær Caye Caulker. Allavegana ættum við að fá að sjá einhverja hákarla þar.

Ég þarf að breyta flugmiðanum heim, þar sem að flugið mitt er frá Gvatemala borg. Ætla í staðinn að kaupa mér miða frá Belize borg, þar sem að rólegheit undanfarna daga hafa ekki gert mig neitt sérstaklega spenntan fyrir 25 tíma rútuferð í gegnum Gvatemala. Ég ætla því að breyta plönunum mínum nokkuð. Kemst vonandi á morgun að kafa Bláu Holuna, en á miðvikudag ætlum við Anja að fara til Lamanai. Á fimmtudag ætlum við svo að ferðast alla leið upp til Cancun. Á föstudag ætlum við svo að skoða [Chichen Itza](http://www.hillmanwonders.com/chichen_itza/chichen_itza.htm#_vtop) rústirnar. Því næst ætlum við að DJAMMMMMMA í CANCUN á föstudags- og laugardagskvöld og svo fer ég til Genna og Söndru í Washington D.C. á sunnudag. Jibbbí jei! 🙂

*Skrifað á Caye Caulker, Belize klukkan 11:05*