Íslenski bachelor-inn: Fyrstu þrír þættirnir

Hvar á ég að byrja?


Ok, fyrir það fyrsta svo það sé á hreinu, þá er fólkið sem skráir sig í [þennan þátt](http://bachelor.s1.is/) náttúrulega hetjur. Það *veit* að það verður gert grín að því og í raun með því að taka þátt í þessum þætti, þá er það að bjóða uppá ákveðin skrif og skot á sjálft sig.

Ég hefði aldrei þorað að fara í þennan þátt og því er þetta fólk hugrakkara en ég hvað það varðar.

En þetta fólk er jú komið í þáttinn og þetta er íslenskt raunveruleikasjónvarp og ég er vanur því að skrifa um raunveruleikasjónvarp á þessari síðu. Þannig að þessu tækifæri get ég ekki sleppt. Ég er búinn að horfa á þrjá fyrstu þættina af þessum þætti og ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja.


Ok, til að byrja með nokkrir punktar úr lausu lofti.

**Fyrir það fyrsta**: Bachelor-inn býr um rúmið sitt *á hótelherbergi*. Hvaða karlmaður gerir svona lagað? Kannski er hægt að finna mann, sem býr um sig heima hjá sér (mamma, sá maður er þó vandfundinn!!!), en að búa um rúmið sitt á hótelherbergi er annaðhvort merki um geðveiki eða þá að hann var að reyna að heilla alþjóð fyrir framan myndavélarnar.

**Í öðru lagi**: Hvað er málið með einstæðar mæður á Íslandi? Þegar ég skrifaði [fyrst um þennan þátt](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/23/19.23.41), þá efaðist ég um að framleiðendur þáttarins myndi finna **25 einhleypar íslenskar stelpur** til að taka þátt. Ég hafði rétt fyrir mér. Ég gat aldrei talið þær nákvæmlega, en stelpurnar í þættinum voru ekki fleiri en 15. Þannig að það er greinilegt að framleiðendurnir fækkuðu stelpunum í þáttunum, væntanlega vegna þess að ekki nógu margar stelpur buðu sig fram. Ástæðan er einfaldlega sú að það eru (einsog ég hef áður bent á) [allar stelpur á Íslandi á föstu](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/). Þær, sem eru ekki á föstu og eru komnar yfir tvítugt eru svo ansi margar orðnar einstæðar mæður.

Ég átta mig í raun ekki alveg á þessu. Ég held að í bandarísku þáttunum hafi ekki ein einasta stelpa átt barn, en í íslenska þættinum virðist helmingurinn af stelpunum eiga lítinn krakka. Af hverju er þetta? Eigum við eitthvað met í fjölda einstæðra mæðra? Ganga sambönd ekki upp á Íslandi?

**Í þriðja lagi**: Í guðs bænum, hættið að kalla þennan þátt “Íslenski bachelor-inn”. Fyrir það fyrsta er “piparsveinn” fínt orð. Það notar enginn orðið “bachelor” yfir piparsvein, ekki einu sinni ungt fólk. Auk þess er það alveg stórkostlega hallærislegt að fallbeygja orðið “bachelor”. Þetta er svo bjánalegt að ég kemst varla yfir það. Ekki að ég sé neinn íslensku fasisti, en samt.
Continue reading Íslenski bachelor-inn: Fyrstu þrír þættirnir