Litli staðurinn okkar þriggja ára

Það er nánast lygilegt að hugsa til þess, en Serrano, litla barnið okkar Emils er orðinn þriggja ára gamall.

Fengum kort frá öllu starfsfólkinu í gær, sem mér þótti geðveikt vænt um. Annars var lítið gert í tilefni afmælisins. Við ætluðum að breyta alveg fullt af hlutum á staðnum, en sökum gríðarlegar þenslu á atvinnumarkaðinum, þá hafa starfsmannamál ekki reynst jafn auðveld og við hefðum óskað.

En breytingarnar munu koma, vonandi aðeins seinna í þessum mánuði. Ég mun kynna þær á þessari síðu, so stay tuned!

Stórt afmælispartý verður líka að bíða, þar sem að Emil er farinn til útlanda og verður úti í mánuð. Ég ætla því bara að halda lítið starfsmannapartý heima hjá mér á laugardaginn. Ég hef ekki djammað á Íslandi í margar, margar vikur, þannig að það verður ábyggilega gaman.

Annars, þá er hérna fyrir þá sem ekki sáu hana í fyrra, Saga Serrano. Í þeirri grein rek ég það hvernig Serrano varð til. Skrifaði söguna fyrir tveggja ára afmælið okkar.

En allavegana, til hamingju með afmælið. Öll þið, sem verslið við okkur reglulega: Takk!