Hólí fokking plebbismi

Í Mogganum í gær er einsog vanalega á laugardögum kafli um ferðalög. Þar er m.a. viðtal við Gísla, miðaldra Íslending, sem fór til Istanbúl með íslenskum fararstjóra í pakkaferð í haust. Hver nákvæmlega tilgangur þess að ræða við þennan ferðalang er, átta ég mig ekki almennilega á.

Gísli var ekki ánægður með ferðina til Tyrklands og er frekar fúll yfir því að það skuli vera til öðruvísi fólk utan Íslands. Hann segir m.a.

>Á hverju horni biðu menn eftir að snuða mann. Það setur óneitanlega blett á svona ferð sem auðvitað er lagt upp með að sé skemmtiferð.

Hólí krapp! Hann er semsagt fúll yfir því að götusalar í Istanbúl sýni honum ekki þá tillitsemi að haga sér einsog Íslendingar, á meðan að þessi íslenski hópur hafi verið í *skemmtiferð*. Þvílíkt tillitsleysi!

Hann heldur áfram:

>Borgin er skítug og leiðinleg. Maturinn ekkert sérstakur.

Hvernig fær Gísli þetta út nákvæmlega? Hvað átti borgin að gera til að vera skemmtilegri? Prófaði Gísli að tala við innfædda, reyna að kynnast menningunni? Eða var hann bara í pakkaferð og ráfaði um borgina í fylgd fararstjóra?

Er [AyaSofia](http://www.hillmanwonders.com/hagia_sofia/hagia_sofia.htm#_vtop), ein merkasta kirkja í heimi, leiðinleg? Hvað með Bláu Moskuna? Eða [Topkapi höllin](http://www.hillmanwonders.com/topkapi/topkapi_palace.htm#_vtop)? Er þetta ekki nógu skemmtilegt? Hvað með allt mannlífið? Skemtanalífið? Öll menningin? Bosphorous? Hvað þarf til að gera borgina skemmtilega? Golfvöll eða strönd kannski?


Gísli heldur áfram:

>Veðrið var leiðinlegt, rigning og slydda allan tímann

Ef nafnið gaf það ekki nógu vel til kynna, þá er Gísli Íslendingur. Er það ekki býsna hæpið fyrir okkur Íslendinga að gagnrýna veður í öðrum löndum?

Og áfram:

>Það er einsog mönnum sé það bara heilagt þarna að ræna villutrúarmenn eins og þeim finnst við vera.

!!!

Bíddu nú aðeins hægur! Hvað hefur þetta með trúarbrögð að gera? Heldur Gísli virkilega að múslimar reyni að ræna fólk sérstaklega af því að það er kristið? Er ekki líklegra að fátækir Istanbúl-búar reyni að nýta sér fáfræði erlendra túrista, sem sýna landi þeirra og menningu afskaplega lítinn skilning?

Hvernig veit hann að Tyrkirnir í Istanbúl líti á hann sem villutrúarmann? Lenti hann einhvern tímann í samræðum við Tyrki um trúarbrögð, eða tekur hann þetta bara beint uppúr sjónvarpinu? Reyndi hann einhvern tímann að nálgast Tyrkja til að fræðast um viðhorf þeirra?


Gísli tekur tvö dæmi af því af hverju Istanbúl er svona hræðileg. Í fyrsta lagi er hann rukkaður of mikinn pening fyrir kebab á götuhorni! Í öðru lagi var farið í hliðartösku konu hans og tekið seðlaveski. That’s it! Ég endurtek, það var *seðlaveski* tekið úr *hliðartösku*! Þau hefðu alveg eins getað borið skilti, sem á stóð “rænið okkur, við erum túristar”.


Svo endar Gísli þetta á þessu:

>Ég segi ekki að þetta hafi verið hrein hörmung, en þetta var ekki gaman.

Semsagt, vitlaust verð á kebab og seðlaveski úr hliðartösku eyðilagði skemmtiferð þeirra hjóna. Og fyrir það ákveða þau að hafa samband við Moggann og gefa það í skyn að Tyrkir séu þjófóttir, sem geri í því að herja á “villutrúarmenn”.

Af hverju í ósköpunum er ferðahluti Moggans að birta svona vitleysu? Veit fólk ekki að það eru þjófar í stórborgum í útlöndum? Þarf einhver að segja svona? Af hverju er í frásögn um Istanbúl ekki minnst einu orði á allt hið góða við borgina, en öllu púðri eytt að segja frá óheiðarlegum kebab sala?

Af hverju er ekki frekar talað við fólk, sem hefur farið til Istanbúl einsog alvöru ferðalangar og reynt að kynnast landinu og menningunni? Fólk, sem er víðsýnt og gerir sér grein fyrir að það sé skítur og fátækt í löndum utan Íslands?

Fyrir utan það að það er náttúrulega ekki hægt að gagnrýna borgina, þar sem [merkasti íþróttaviðburður þessarar aldar](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/06/04/ferasaga_istanbl) fór fram 🙂