Geturðu sent mér email um þetta?

Ég hef komist að merkilegri niðurstöðu varðandi íslenskt viðskiptalíf:

**Íslendingar geta ekki tekið á móti upplýsingum í síma!**

Það er orðið gjörsamlega gagnslaust að hringja í fólk. Nær undantekningalaust þyl ég einhverja romsu í símann og eina svarið, sem ég fæ er: “Heyrðu, geturðu nokkuð sent mér þetta á email?” Þetta er orðið að algjörlega krónísku vandamáli hjá fólki. Ég held að almennt séð geti fólkið ekki haldið athyglinni út eitt stutt símtal.

Ég er orðinn fáránlega þreyttur á að biðja um einfalda hluti í síma, en fá alltaf “sendu mér póst um þetta” svarið tilbaka. Einnig virðist enginn geta lengur tekið ákvarðanir á fundum. Öllum fundum þarf að ljúka með: “heyrðu, ég sendi þér svo póst með punktunum og við tökum ákvarðanir út frá því”.

Ég fékk endanlega nóg í dag þegar ég hringdi og bað um verð á einni vöru, en var beðinn um tölvupóst og æsti mig í símann, sem gerist nú ekki oft. En þessu verður að linna.