Hvað get ég gert?

stelpur-midam.jpgÉg er 28 ára gamall. Ég hef ferðast víða og upplifað margt. Ég vinn mjög mikið og hef komið mér ágætlega fyrir. Ég á engin börn og þarf ekki að sjá um neinn nema sjálfan mig.

Að undanförnu hef ég hugsað æ meira um það hvað ég get gert til að bæta mig og mitt umhverfi. Í raun er það fáránlegt að eyða þúsundum krónum í alls konar vitleysu, en láta svo ekkert af hendi rakna til betri málefna. Í gegnum árin hef ég kynnst flestum löndum Ameríku og séð fátæktina, sem þar er. Á þeim ferðalögum hafa stjórnmálaskoðanir mínar ávallt sveigst til vinstri og mig hefur langað til að gera eitthvað í málunum. En einhvern veginn hef ég aldrei látið neitt verða úr því. Ég veit að ég breyti ekki miklu sjálfur, en þótt að það hljómi klisjulega, þá getur tiltölulega lítið fjárframlag frá mér orðið til þess breyta lífi fólks í fjarlægum löndum.

Það er í raun súrealískt að hugsa til þess að peningar, sem mig munar ekki um, geti actually breytt *lífi* fólks á öðrum stöðum. Og það er fáránlegt að hugsa til þess að ég hafi ekkert gert í þessum málum. En núna skal því breytt.


Ég hef skrifað á þessa síðu í 5 ár og á [Liverpool bloggið](https://www.eoe.is/liverpool) í 18 mánuði. Í dag er það svo að um 1500 manns skoða þessar tvær síður í hverri viku. Það er nokkuð stór hópur. Ég ætla nú að reyna að nýta mér það í hag einhvers annars en eigin egós. Mér finnst það líka talsvert athyglisvert að sjá hvort að hægt sé að nýta bloggsíður til góðgerðarmála.Heima hjá mér er haugur af dóti, sem ég nota aldrei og líka haugur af dóti, sem ég nota en aðrir hefðu sennilega meiri not fyrir. Það, sem ég ætla að gera er að bjóða ykkur lesendum að bjóða í þessa hluti. ALLUR peningurinn, sem ég fæ fyrir þessa hluti mun fara til góðgerðarmála í Mið-Ameríku.

Þetta er fullt af gagnlegum hlutum og ég bið ykkur endilega að bjóða rausnarlega í hlutina. Ég ætla að setja lægsta boð á suma hlutina, en annars mun ég láta alla hlutina fara á hæsta boði. Þið getið ábyggilega gert þarna mjög góð kaup og þið getið verið viss um að 100% upphæðarinnar renna til góðgerðarmála. Ég er búinn að ákveða að peningarnir fari til að hjálpa krökkum í Mið-Ameríku, en mun ekki velja samtökin fyrr en ég veit hversu há upphæðin verður. Auk þess sem ég safna með þessu uppboði ætla ég að leggja 15% af laununum mínum fyrir desember mánuð í þennan málstað. Ef þið viljið leggja pening í þetta mál án þess að bjóða í hluti getiði [sent mér póst](https://www.eoe.is/ummig/). Ég legg auðvitað heiður minn að veði um að allir peningarnir munu skila sér til góðra samtaka.

Ég ætla að skipta hlutunum í þrennt. Í fyrsta hlutanum ætla ég að bjóða upp tæki eða nýja hluti. Ég ætla t.d. að selja nýlega Playstation 2 tölvu og svo framvegis. Í næsta hlutanum ætla ég að selja haug af Xbox tölvuleikjum, DVD diskum og CD diskum. Þar mun ég selja hlutina mjög ódýrt. Í þriðja hlutanum ætla ég svo að selja gamla hluti, sem einhverjum söfnurum finnast kannski sniðugir. Allt frá gömlum tölvuspilum til gamalla Liverpool treyja og Star Wars leikfanga.

Þetta byrjar allt á morgun, þá set ég inn tækin og nýju hlutina.

Ég ætla að biðja ykkur, sem eruð með blogg um að skrifa um þetta á ykkar síðum. Ég er ekki að þessu til að vekja meiri athygli á síðunni, heldur vill einungis ná inn eins mörgum lesendum og því hærri boðum í hlutina. Ég vona að þetta hljóti góðar undirtektir.

En allavegana, uppboðið hefst núna. Ég er búinn að búa til síðu undir þetta uppboð og er [hana að finna hér](https://www.eoe.is/uppbod).

Fyrsti hluti uppboðsins, tæki og nýtt dót, er kominn upp [hér](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/10/9.13.58/). Ég býst fastlega við að þetta fari mjög hægt af stað, en heimsóknir á þessa síðu eru vanalega fáar um helgar. DVD diskarnir fara upp á mánudag, Xbox leikirnir á þriðjudag og svo framvegis. Hver hluti uppboðsins mun vera uppi í fjóra daga.