Skata

Ég fór í hádeginu á mitt fyrsta skötuhlaðborð. Pabbi var búinn að reyna að draga mig í hlaðborð í nokkur ár og ég ákvað loksins að skella mér með honum þetta árið. Hef alltaf haft lúmskan grun um að skötuát snúist meira um að sýna karlmennsku, heldur en að bragðið sé svo gott. Það er að það væri voðalega macho að segjast borða vel kæsta skötu. Ég vildi því sannreyna þá kenningu.

Ég fór á Tvo Fiska, þar sem hlaðborð var. Ég fékk mér milli-kæsta skötu og hellti einhverri fitu yfir. Settist svo og smakkaði smá bita.

Í raun er þetta *ólýsanlega* vondur matur. Ég hef borðað ýmsan óþverra í gegnum árin á ferðalögum mínum um heiminn og hef gengið svo langt að borða maura og tarantúlur. En það kemst hreinlega ekkert nálægt skötunni í vondu bragði. Ég kúgaðist við það eitt að setja matinn uppí mig, því skatan hefur ekki bara bein áhrif á bragðlaukana, heldur er einsog bragðið sprautist um allan munninn og maður fyllist af einhverju skrýtnu og viðbjóðslegu lofti í munninum.

Ímyndið ykkur versta fisk, sem þið hafið smakkað. Ímyndið ykkur svo að einhver helli terpentínu yfir fiskinn og kveiki í honum. Sá hinn sami mígur svo ofaná fiskinn til að slökkva eldinn. Og til að toppa það, þá er hellt myglaðri mjólk yfir. Þá held ég að við getum farið að nálgast bragðið á skötunni.

Mér finnst frábært að einhverjir einstaklingar hafi hugrekkið til þess að borða þennan mat. En ég hef hins vegar komist að því að þetta er ekki fyrir mig.