Atvinnuástand

athugasemd: Ég var að fara yfir færslusafnið í Movabletype og sérstaklega færslur, sem ég birti ekki af einhverjum ástæðum. Þessa færslu skrifaði ég í hálfgerðu reiðikasti þegar sem allra verst gekk að ráða á Serrano fyrir nákvæmlega tveim mánuðum, eða 9.nóvember.

Ástandið á Serrano hefur bæst mjög mikið og er í fínu ástandi núna. En pistillinn á svo sem enn ágætlega við. 🙂

* * *

Er það ekki ágætis merki um þetta fáránlega atvinnuástand hér á Íslandi að heimasíður [Burger King](http://www.burgerking.is/) og [McDonald’s](http://www.mcdonalds.is/) eru í raun ekkert nema ein stór starfsumsókn? Ekkert um matinn, bara “viltu plííís vinna fyrir okkur?” *(nota bene, BK síðunni hefur núna verið breytt – hún var áður einsog McDonald’s síðan)*

McDonald’s eru svo farnir að eyða milljónum í að birta bandarískar ímyndarauglýsingar, þar sem fólk er hvatt til að koma og vinna hjá þeim.

* * *

Í síðustu viku var hringt í mig af stéttarfélagi og ég spurður um fyrrverandi starfsmann, sem var að sækja um atvinnuleysisbætur. Ég sagði viðkomandi að ég myndi ráð fyrrverandi starfsmanninn á staðnum, hún þyrfti bara að tala við mig. Ég sagði líka að ég gæti reddað henni sirka 50 vinnum. Konan hjá VR sagði mig indælan, en samt þá gæti hún ekkert gert í þessu, því hún vildi fara á bætur.

* * *

Framsóknarflokkurinn er með hugmyndir að þremur álverum. TIL HVERS Í FOKKING ANDSKOTANUM? Ekki getur það hugsanlega verið til að slá á atvinnuleysi. Ef að Halldór Ásgrímsson heldur að það sé eitthvað atvinnuleysi á Íslandi, þá ætti hann að ráða sig sem starfsmannastjóra hjá stóru fyrirtæki og reyna að ráða í stöður. Þjóðhagsleg hagkvæmni álveranna er líka vafasöm. Eru framsóknarmenn úr öllum tengslum við íslenskan veruleika?

* * *

Ég talaði við rafvirkja, sem ég þekki vel og hann sagðist hugsanlega getað komið til mín í byrjun desember – eftir fjórar vikur! Ég hef reynt að fá pípara uppá veitingastað í þrjár vikur, en án árangurs. Það talar enginn um það, en ástandið á þessu landi er orðið hreinasti hryllingur.

Ég veit um fullt af fyrirtækjum, þar sem launakostnaður fer uppúr öllu valdi þessa dagana, vegna þess að fyrirtækin eru svo hrædd um að missa fólk. Fyrirtæki halda lélegu starfsfólki af því að þau eru hrædd um að enginn komi í staðinn. Ég þakka allavegana Guði fyrir að vera ekki svo illa staddur með mitt fyrirtæki.

* * *

Á Alþingi segir Menntamálaráðherra að vandamál leikskólanna séu lág laun. Gott og vel, ég get verið sammála því. En það sem vantar inní þessa umræðu er einfaldlega sú staðreynd að það *er ekki nóg fólk á Íslandi*. Ef að fólkið myndi nást inná leikskólana, þá myndi það vanta í aðrar stöður. Við þurfum að auðvelda til muna löggjöf til að fá nýtt fólk inní þetta land. Annars fer þetta allt til fjandans.

* * *

Ég leyfi mér að fullyrða að hvergi í heiminum er jafn erfitt að fá fólk í vinnu og á Íslandi. HVERGI Í HEIMINUM! Ef einhver getur bent mér á verri stað, þá væri það vel þegið.

Ég mun þá ekki opna veitingastaði í því landi.