Kæru fjölmiðlar

Kæru fjölmiðlar.

Ég er búinn að fá nóg.

Ég er búinn að fá nóg af viðskiptafréttum, sem hafa ekkert erindi inní aðalfréttatíma sjónvarpsstöðvanna. Mér finnst að ég ætti ekki að þurfa að minnast á þetta, en það er einfaldlega *ekki* svo fréttnæmt þegar að hlutabréf skipta um hendur! Það er í besta falli viðskiptafrétt og ætti því heima í sérstökum viðskipablöðum dagblaðanna, eða þá í sjálfu Viðskiptablaðinu, sem að flestir sem að málin varða, lesa.

Fyrir okkur hin, þá skiptir það hins vegar ekki nokkru einasta máli að 80 milljarðar í hlutabréfum hafi skipt um hendur á sunnudaginn. Þetta varðar mig ekki neitt og ég leyfi mér að fullyrða að fyrir utan þessa nokkru menn, sem stóðu í viðskiptunum og fólk, sem lifir og hrærist á hlutabréfamarkaði, þá skiptir þessi frétt fólk nákvæmlega engu máli.

Hvar í veröldinni þykja hlutabréfakaup svo mikið mál að þau verðskuldi á hverjum degi að vera fyrsta eða önnur frétt sjónvarsstöðva? Svona hlutir gerast á hverjum einasta degi. Karl númer 1 selur karli númer 2 hlutabréf á hverjum degi. Annar þeirra er ríkari, hinn fátækari. Húrra! Þannig gengur markaðurinn, en það skiptir okkur hin nákvæmlega engu máli.

Ef að tilgangurinn með þessum fréttum er sá að láta okkur gapa yfir þessum stóru upphæðum, þá er það bæði asnalegt og tilgangslaust. Ég gapi ekki. Það angrar mig ekkert að þessir menn eigi meiri pening en ég. Þeirra auður breytir engu fyrir mig.

* * *

Á sama hátt þá er það er engin frétt að Tom Jones hafi skemmt í einhverju [nýárspartýi](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1847&gerd=Frettir&arg=6) fyrir Íslendinga í London. Hvað varðar mig það þótt að einhverjir bankaplebbar útí London hafi ekki betri tónlistarsmekk en svo? Eigum við að hrópa úh og ah þegar við horfum á fréttirnar? Eigum við að vera öfundsjúk eða hneykslast á því að menn eyði pening í svona lélega tónlist? Hver er tilgangurinn? Eigum við kannski að vorkenna þeim, eða senda þeim geisladiska með betri tónlist?

* * *

Ég leyfi mér að fullyrða að í engu öðru landi er milliuppgjör fyrirtækja jafnoft í fréttum og hér á Íslandi. Hvaða máli skipta milliuppgjörin mig? Af hverju er ekki hægt að fjalla um þau í viðskiptablöðum líkt og fjallað er um Liverpool í íþróttablöðum? Hvað með það þótt að KBBanki hafi grætt mikið? Hverju breytir það? Hluthafar bankans og starfsmenn fylgjast væntanlega með rekstrinum, en þurfum við virkilega sjónvarpsfréttir þar sem menn gapa yfir hagnaðinum?

Þetta allt saman er að ala undir allsherjar geðveiki hér á landi, þar sem allt snýst um peninga. Enginn er maður með mönnum nema hann eigi kauprétt á hlutabréfum og vinni í banka. Menn kaupa flugfélög til að reka þau sem fjárfestingarfélög og skila pappírshagnaði á meðan að flugreksturinn er rekinn með tapi. Af því að fréttirnar hafa kennt okkur að peningurinn verður ekki til í rekstri. Hann verður til með því að kaupa og selja hlutabréf. Þeir, sem leggja sitt undir að stofna lítil fyrirtæki eru í raun bara kjánar, því menn græða ekkert á því að reka fyrirtæki, heldur einungis á því að kaupa og selja bréf í öðrum fyrirtækjum.

* * *

En það skiptir svo sem ekki öllu máli. Vandamálið er bara að ég vil fá alvöru fréttir. Fréttir, sem skipta máli. Ég vil vita hvað er að gerast útí heimi. Það er svo margt að gerast útí heimi, sem er fróðlegra og mikilvægara en milliuppgjör Landsbankans. Af hverju er okkur ekki sýnt það? Það myndi eflaust gera okkur öllum gott. Í stað þess að hafa áhyggjur af því að einhverjir græði á pappírskaupum, þá gætum við byrjað að hafa áhyggjur og áhuga á því, sem skiptir í raun máli í þessum heimi. Það væri okkur öllum hollt.

kveðja,

Einar Örn