Hvalkjöt á diskinn minn (hóst)

Ég get hreinlega ekki lengur verið með línurit sem efstu færslu á þessari bloggsíðu. Verð bara að skrifa…um eitthvað.

Allavegana…

Á miðvikudaginn var ég með útlendinga í mat á Humarhúsinu. Það er ekki frásögu færandi nema fyrir eina staðreynd. Á matseðli Humarhússins er nefnilega boðið uppá hvalkjöt í forrétt (ásamt hrossakjöti – “namminamm” ). Ég hvatti útlendingana til að prófa án teljandi árangurs. Þegar þau svo spurðu mig nánar útí hvalkjötið, þá komst ég að því að ég hafði sjálfur aldrei prófað hval.

Ég hef hins vegar verið undir stanslausum áróðri íslenskra yfirvalda og hvalveiðiáhugamanna nær allt mitt líf. Sá áróður gengur útá tvennt: 1) Hvalkjöt bragðast yndislega, hreinlega einsog besta nautasteik (þetta með nautasteikina hef ég heyrt svona 100 sinnum) – og 2) Hvalkjöt er brjálæðsilega vinsælt og selst alltaf upp í verslunum um leið og það er til.

Ég vissi að seinni punkturinn væri tómt þvaður, en var ekki viss um þann fyrri.

Ég ákvað að prófa matinn. Hvalkjötið kom á borðið að japönskum stíl, hrátt, borið fram með soja sósu og wasabi. Það er skemmst frá því að segja að kjötið var *viðbjóður*. Ekki alveg jafnviðbjóðslegt og [skata](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/23/14.39.38) (sem fólk hafði líka logið að mér að væri yndisleg á bragðið), en samt verulega vont.

*(Ég tek það fram að þetta vonda bragð var svo sannarlega ekki matreiðslumönnum á Humarhúsinu að kenna, enda maturinn þar (með þessari einu undantekningu) algjörlega frábær. Einnig var þjónustan frábær, því um leið og þjónninn sá að ég borðaði ekki kjötið, þá bauð hún mér uppá fulla endurgreiðslu.)*

Hvalkjöt er ekki nálægt því að bragðast einsog “besta nautakjöt” einsog spunameistararnir hafa haldið fram. Já, það lítur svipað út, en bragðið er ekki nálægt því. Ég er hreinlega hættur að taka fólk trúanlega þegar það talar um að þjóðlegur íslenskur matur sé góður. Ég hef því ákveðið að prófa ekki restina af þessu þjóðlega gumsi, sem menn halda fram að sé einsog sælgæti á bragðið. Þetta á því við um hákarl, hrútspunga og allt þetta jukk, sem ég hef ekki prófað síðan að ég bragðlaukarnir mínir þróuðust frá því að þykja sandur góður á bragðið.

p.s. Bendi líka á [þessa grein í Grapevine](http://www.grapevine.is/Undirflokkar.aspx?id=1063), sem fjallar að hluta til um jákvæðar hvalaveiðgreinar á vísi.is