Múrinn og Hugo

Chavez11.jpgÞau á Múrnum virðast hafa afskaplega veikan blett fyrir Hugo Chávez. Af hverju er erfitt að skilja.

Í dag er á Múrnum grein, þar sem agnúast er útí (að mínu mati hálf kjánalegar) yfirlýsingar Condoleeza Rice um Hugo Chávez: [Rice finnur rauðu hættuna í suðri](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1886&gerd=Frettir&arg=7). Í þeirri grein er að finna marga skringilega punkta (feitletranir mínar):

>Rice sagði að ríkisstjórn Chávez væri ógn við lýðræðið í þessum heimshluta og að valdhafar í Caracas hvettu stjórnvöld annarra ríkja til að feta sig út af braut lýðræðislegra stjórnarhátta. **Það virðist því hafa farið framhjá fólki í Hvíta húsinu að Hugo Chávez var kjörinn forseti Venesúela í lýðræðislegum kosningum á sínum tíma, vann með yfirburðum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmönnum gafst kostur á að lýsa á hann vantrausti og að flokkarnir sem styðja ríkisstjórn Chávez unnu stórsigur í þingkosningum í byrjun desember á síðasta ári.** Framlag Bandaríkjastjórnar til varnar lýðræðinu þá var að hvetja stjórnarandstöðuflokkana til að sniðganga kosningarnar, sem þeir gerðu með þessum ljómandi góða árangri

Chávez **ER** ógn við lýðræðið. Þrátt fyrir að hann sé á móti Bandaríkjunum, þá þýðir það ekki að hann sé góður gæi. Já, hann vann lýðræðislegar kosningar, en það afsakar hins vegar ekki hvað hann hefur gert síðan hann komst til valda.

Bara til að nefna nokkra hluti, þá hefur Chávez t.d. lagt niður eftri deild þingsins í Venezuela, þannig að núna þarf hann bara að fara í gegnum eina deild með ný lög. Vegna þess að hann hafði aðeins lítinn meirihluta á þingi í upphafi, þá breytti hann lögunum þannig að nú þarf ekki lengur 2/3 atkvæða til að breyta lögum, heldur aðeins einfaldan meirihluta. Hann hefur nú algjöra stjórn á hernum, en þingið hafði áður hlutverk í stjórn hersins. Chávez stjórnar einnig stofnuninni, sem sér um kosningar í Venezuela.

Chávez hefur gefið sjálfum sér leyfi til að reka dómara og hefur lengt kjörtímabilið sitt um eitt ár. Hann hefur stækkað hæstarétt úr 20 í 32 dómurum og með því fyllt réttinn af dómurum hliðhollum sjálfum sér. Hugo Chávez ER ógn við lýðræðið í þessum heimshluta. Hversu mikið þarf hann eiginlega að gera að mati Múrsverja til að teljast ógn við lýðræði?

>Rice sagði ennfremur að hin nánu tengsl Venesúela og Kúbu væru „sérstaklega hættuleg“ og að „alþjóðasamfélagið“ yrði að vera betur á verði fyrir hönd almennings í Venesúela. Ekki er ljóst hverjum er hætta búin af þessum tengslum

Hvað með fólkinu sjálfu í landinu? Fólki, sem gat mótmælt í Venezuela. Það þykir hreint ekki svo sjálfsagt í dag að mótmæla í Venezuela í dag og pólitískum föngum hefur fjölgað undir stjórn Hugo Cavez. Hægt er að handtaka fólk ef það sýnir embættismönnum “vanvirðingu”. Auðvitað er ástandið í Venezuela, hvað varðar réttindi borgaranna til að mótmæla, ekki jafn slæmt og á Kúbu, en Chávez hefur ítrekað líst aðdáun sinni á Castro og hans stjórnarháttum. Hann hefur ekki (allavegana ekki svo ég viti) mótmælt meðferð Fidels á pólitískum andstæðingum sínum.

>Vissulega er það fleira sem stjórnin í Caracas hefur gert til að skaprauna George W. Bush og félögum. Til dæmis lagði hún líknarfélögum til ódýra olíu til húshitunar fyrir fátækt fólk í Bandaríkjunum fyrr í vetur og hefur keypt heilbrigðisþjónustu af Kúbverjum í stórum stíl.

Hvað nákvæmlega hefur SH fyrir sér í þessu? Getur hann nefnt einhver dæmi þess að GWB hafi pirrað sig útí að Venezuela hafi selt ódýra olíu til líknarfélaga? Eða er þetta bara byggt á almennum sleggjudómum, sem þeir á Múrnum virðast stundum hafa útí allt og alla, sem koma frá Bandaríkjunum?

>Ekki þarf að efast um að ríkisstjórn Hugo Chávez verðskuldi ýmiss konar gagnrýni eins og allar aðrar ríkisstjórnir.

Hvaða bull er þetta eiginlega? Á sama hátt væri hægt að skrifa að ríkisstjórnin í Norður Kóreu ætti skilið gagnrýni einsog allar aðrar ríkisstjórnir. Málið er auðvitað að ríkisstjórnin í Venezulea á skilið margfalt meiri gagnrýni en flestar aðrar ríkisstjórnir. Það er ekki hægt að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á Chávez með því að halda því fram að allar ríkisstjórnir eigi skilið gagnrýni.

Þeir á Múrnum virðast hafa skringilega veikan blett fyrir Hugo Chávez. Já, Hugo hefur haldið úti verkefnum, sem hafa skilað einhverju til fátæks fólks í landinu. En hann hefur getað leyft sér þau verkefni vegna gríðarlega hás olíuverðs. Og já, hann er töffari, sem dissar Bandaríkin. (og já, hann fílar basbeall – að mínu mati mikill kostur)

En ef ekki væri fyrir hátt olíuverð, þá væri þessi bólívarska bylting hans farin á hausinn og það sem eftir stæði væri að lýðræðið í Venezuela stendur umtalsvert veikari fótum en áður.