Endalok uppboðsins

oa_logo.gifJæja, uppboðinu er lokið. Það tók yfir tvo mánuði að klára öll mál tengd þessu átaki mínu.

Ég seldi nánast allt geisladiska- og dvd safnið mitt ásamt alls konar dóti, sem ég hafði litla þörf fyrir í mínu lífi.

Íbúðin og geymslan mín eru aðeins tómlegri en fyrir, en þó finn ég ekki mikið fyrir því´að þetta dót sé farið. Sem segir ansi mikið um það hversu mikið af drasli manni tekst að safna saman í gegnum árin.

Ég fékk einnig frjáls framlög frá fólki í kringum mig og fólki, sem les þessa síðu og einnig gaf ég sjálfur aðeins meira en 15% af desember laununum mínum.

Niðurstaðan? Jú, ég safnaði samtals:

500.000 krónum

Það er svo miklu, miklu meira en ég átti von á í upphafi. Viðbrögðin voru miklu meiri en ég vonaðist eftir og ég hef haft ótrúlega gaman af því að standa í þessu. Ég hef talað við fullt af skemmtilegu fólki útaf þessu og þetta hefur víða vakið athygli.

Ég vil þakka öllum, sem tóku þátt í þessu. Sérstakt hrós fær Ólöf frænka mín, sem gaf peninga sem hún safnaði með því að safna saman dósum í hverfinu sínu. Ég þakka öllum, sem keyptu hluti á uppboðinu og sem lögðu sína peninga í þetta átak með mér. Ég er viss um að peningnum okkar er vel varið hjá Oxfam.

Peningurinn allur (um 7.500 dollarar) mun allur fara til hjálparstarfs Oxfam í Mið-Ameríku, þar sem hálf milljón króna er mikill peningur. Ég millifærði peningana til Oxfam síðasta föstudag og ég treysti Oxfam mjög vel til þess að koma þessum peningum í góðar hendur. Ég mun setja inn hérna staðfestingar frá Oxfam fyrir peningagjöfinni þegar þær koma.