Stöð 2 og niðurhal

Í Kompási áðan var fjallað um niðurhal á sjónvarpsefni. Inntak þáttarins var svipað og í annarri umfjöllun um þetta mál. Það er – þátturinn byggðist upp á viðtölum við hagsmuna-aðila, þar sem þeir lýsa því yfir að þetta niðurhal kosti þá pening, sé þjófnaður, og að við þessu verði brugðist. Í þættinum var m.a. viðtal við konu frá Stöð 2, sem lýsti yfir miklum áhyggjum af því að niðurhal á sjónvarpsþáttum gæti hugsanlega haft mikil áhrif á afkomu þeirrar sjónvarpsstöðvar.

Engin tilraun var gerð til að komast að því hvað hvetji fólk til þess að hala niður þáttum í stað þess að horfa á í sjónvarpinu. Ég er með allavegana eina kenningu.

Ég var nefnilega lengi vel áskrifandi að Stöð 2. Það var hins vegar áður en ég uppgötvaði að módel af sjónvarpsstöð einsog Stöð 2 er gjörsamlega úrelt fyrirbæri.

Beisiklí þá gengur Stöð 2 útá að fólk borgi fyrir mánaðarlega áskrift að stöðinni. Síðan er væntanlega hópur af fólki í vinnu hjá Stöð 2, sem ákveður hvað á að vera á dagskrá. Þetta fólk ákveður að á mánudögum skuli vera mikið af stelpuþáttum, að það sé sniðugt að hafa röð af sápuóperum á sunnudögum, hvenær barnaefni eigi að vera, að á laugardögum eigi að vera fjölskylduefni og svo framvegis.

Allt er þetta gert til þess að hægt sé að höfða til sem allra flestra. Málið er bara að það er einfaldlega ekki hægt til allra. Ef að ég fer af einhverjum ástæðum ekki útúr húsi á laugardagskvöldi, þá hef ég sem 28 ára gamall maður lítinn áhuga á því að horfa á fjölskyldumyndir eða “Það var lagið”. Stundum er ég í matarboði hjá mömmu þegar að vinsælustu þættirnir eru sýndir á sunnudögum. Ég er í fóbtolta þegar að þessi þáttur er sýndur, og í vinnu þegar að hinn þátturinn er sýndur. Líf mitt samræmist einfaldlega ekki dagskrárstefnu Stöðvar 2.

Fyrir utan það hversu erfitt er að búa til “alhliða” sjónvarspsstöð, sem hentar sem flestum, þá er dagskrárefnið á Stöð 2 einfaldlega ekki mikið fyrir mig. Ég var búinn að vera með Stöð 2 í einhver ár þegar ég áttaði mig á því að mér fannst það ekki spennandi að hafa Strákana á hverjum einasta degi. Mér finnst Sjálfstætt Fólk tilgerðarlegur þáttur og ég get ekki fyrir mitt litla líf þolað Idol. Ég horfi heldur ekki á Opruh, er búinn að sjá flestar bíómyndirnar, sem eru sýndar og finnst fréttirnar og Ísland í Dag hafa dalað eftir að NFS byrjaði. Semsagt, það er nánast engin ástæða fyrir mig að eyða 5.000 krónum á mánuði í áskrift að Stöð 2.

Ég eyði nú þegar umtalsverðum fjárhæðum á mánuði í sjónvarp. Ég borga 4.300 krónur fyrir áskrift að Sýn þar sem ég horfi á Meistaradeildina, NBA og Barcelona í spænska boltanum. Og ég borga um 2.000 krónur á mánuði fyrir enska boltann. Þetta gera samtals 6.300 krónur á mánuði. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum borgaði ég 1.400 krónur fyrir um 60 stöðvar, sem innihéldu allt besta efnið, sem framleitt er í heiminum, fyrir utan það sem HBO býr til. Ef ég vildi hafa aðgang að sama efninu og ég hafði fyrir 1.400 krónur í Bandaríkjunum þyrfti ég að borga um 9.500 krónur á Íslandi (áskrift að Sýn, Stöð 2 og Enska Boltanum + auðvitað afnotagjald af RÚV, sem ég tek ekki með).

Vandarmálið við Stöð 2 hvað mig varðar er hins vegar einfalt. Stöð 2 sýnir nefnilega báða uppáhalds þættina mína, The Simpsons og 24. Þetta voru einu ástæðurnar fyrir því að ég keypti Stöð 2 síðustu mánuðina sem ég var með stöðina. Ég bókstaflega horfði ekki á neitt annað og hafði engan áhuga á öðru efni á stöðinni. Þar sem að seríurnar af Simpsons og 24 voru ekki keyrðar á sama tíma þurfti ég í raun að kaupa áskrift að Stöð 2 allt árið til að ná öllum “nýjum” þáttum af þessum seríum. Það hefði þýtt að til þess að horfa á eina seríu af 24 og eina seríu af “The Simpsons” hefði ég þurft að borga um 60.000 krónur, eða 1.250 krónur fyrir hvern einasta þátt. Það sjá það allir að þetta gengur hreinlega ekki upp.

Til þess að geta horft löglega á 24 og The Simpsons þurfti ég með öðrum orðum *líka* að kaupa mér aðgang að Strákunum 5 sinnum í viku, íslenska Idol-inu, Það var lagið með Hemma Gunn, Sjálfstæðu Fólki, Opruh, Veggfóðri með Völu Matt, Third Watch, Nágrönnum, Barnaefninu á morgnana og fullt af öðrum þáttum, *sem ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á að horfa á*. Það er gallinn við Stöð 2.

Þetta er alls ekki svo ólíkt því að til þess að ég gæti keypt nýjasta diskinn með The Flaming Lips, þá þyrfti ég líka að kaupa disk með James Blunt, Coldplay, lögum úr Latabæ, Julio Iglesias, Ríó Tríó og svona 10 böndum í viðbót. Eða að til þess að maður gæti farið í bíó á Munich þá þyrfti maður líka að kaupa aðgang að Finding Nemo, Stuðmannamyndinni, Strákunum Okkar og 5 öðrum myndum, sem manni langaði ekki að sjá.

Stöð 2 verður einfaldlega að horfast í augu við þann veruleika að tímarnir hafa breyst. Það er ekki í dag hægt að ætlast til þess að fólk borgi 5.000 krónur á mánuði fyrir blöndu af dagskrárefni, sem höfðar til eins ákveðins hóps en ekki til annars. Núna í dag vill fólk fá val. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að borga 2.000 krónur fyrir einn dagskrárlið (Enska Boltann) en er ekki tilbúinn að borga stórar upphæðir fyrir það að geta horft á uppáhaldsþáttinn minn á ákveðnum tíma á ákveðinni rás, umkringdan af draslefni.

Ég vona að SMÁ-Ís bregðist við þessu aukna niðurhali á skynsaman hátt. Ekki með því að ætla að kæra fólk fyrir að hlaða niður sjónvarspefni, heldur með því að hvetja alla aðila til þess að bjóða uppá betri þjónustu. Ég *vil* borga fyrir mitt efni, en það þýðir ekki að hægt sé að pranga uppá mig alls kyns drasli tengdu því eða að hægt sé að rukka mig óhóflega fyrir það. Ég vil einfaldlega geta borgað fyrir mitt sjónvarspefni hóflegt gjald og geta horft á það þegar mér hentar. Er það óraunhæf krafa?