Draumalandið

draum.jpgKláraði að lesa *Draumalandið* eftir Andra Snæ inná kaffihúsi hérna í Amsterdam fyrr í dag.

Ég hef svona 20 sinnum við lestur bókarinnar skrifað hjá mér punkta vegna hugmynda, sem ég fékk að pistlum og öðru. Mig langar að skrifa svo ótrúlega mikið um þessa bók og þær tilfinningar, sem hún kallaði fram hjá mér. Ég man hreinlega ekki eftir bók sem hefur breytt sýn minni á samtímamál á Íslandi jafnmikið og *Draumalandið* hefur gert. Ég veit varla hvar ég á að byrja að skrif mín um hana. Ég táraðist, varð fáránlega reiður, fylltist bjartsýni og ofsalegri svartsýni við lesturinn.

Einsog ég segi, þá veit ég ekki hvar ég á að byrja. Ég ætla því bara að biðja fólk um að *lesa* bókina. Hún er einfaldlega **skyldulesning fyrir alla Íslendinga**. Það má vel vera að ekki séu allir sammála innihaldinu, en ég held að langflestir séu sammála um að hún vekji upp gríðarlega margar og áleitnar spurningar um stjórnvöld á Íslandi.

Jafnvel þótt þú hafir ekki áhuga á stóriðju og sért orðinn drepleið/ur á blaðri um Kárahnjúka, Alcoa og allt þetta drasl. Jafnvel þótt þú hafir tapað áhuganum á þessum málum, þá er þessi bók pottþétt leið til að vekja hann upp aftur. Ég er viss um að við lesturinn munu jafnvel þeir, sem hafa engan áhuga á stjórnmálum á Íslandi í dag, vakna til lífsins.

Einsog segir í [Tímariti M&M](http://www.tmm.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=323):

>Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp vekjandi efnisatriði þessarar bókar en ég vil síður tefja ykkur frá því að lesa hana sjálfir, lesendur mínir góðir. Fáið ykkur Draumalandið, takið hana að láni á bókasafninu, kaupið hana í bókabúðinni, lesið hana við bókaborðið eða stelið henni ef þið eigið ekki fyrir henni. Þessa bók VERÐA ALLIR ÍSLENDINGAR AÐ LESA, hvort sem þeir eru fylgjandi eða mótfallnir stóriðju. Við erum vel menntuð, vel læs þjóð, við eigum rétt á þeim upplýsingum sem þarna er að finna. Það hefur verið reynt að slá ryki í augu okkar, hræða okkur með hótunum og lygum frá því að afla okkur upplýsinga. Hér eru þær allar á einum stað. Notum okkur það og tökum svo sjálfstæða ákvörðun um hvernig það draumaland á að líta út sem við viljum að Ísland sé og verði.

Drífið ykkur útá bókasafn eða útí bókabúð NÚNA! Svo getum við talað saman.