Uppsögn

Ég er búinn að segja upp [vinnunni](http://www.danol.is/starfsfolk/004286.php) minni.

Um síðustu áramót hafði ég áttað mig á því að ég var ekki sáttur við þá stefnu, sem líf mitt virtist vera að taka. Ég var alltaf nokkuð ánægður í vinnunni minni, en samt var það ekki nóg. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað vantaði, en ég var viss um að ég þurfti að breyta einhverju.

Augljósasta byrjunin var að segja upp vinnunni. Því gerði ég það í kringum áramótin. Þá fékk ég hins vegar að vita að það ætti að selja fyrirtækið og því ákvað ég að doka við og verða áfram þangað til að því ferli væri lokið. Núna er það búið og ég því formlega að hætta þann 30.júní.

Ég er búinn að elska þessa vinnu síðustu 3 ár og hún hefur oft á tíðum ásamt Serrano haldið mér gangandi þegar að hlutir í einkalífinu hafa ekki gengið eins vel og ég hefði óskað. Ég hef ferðast gríðarlega mikið og þrátt fyrir að ég kvarti stundum undan álaginu, sem fylgir öllum ferðalögunum, þá hafa þau svo miklu fleiri kosti en galla. Vinnan hefur líka verið gríðarlega krefjandi og skemmtileg og ég hef kynnst fulltaf skemmtilegu fólki. En núna finnst mér ég hafa náð öllum þeim takmörkum, sem ég setti mér í upphafi og því get ég sáttur skilið við starfið.

* * *

Ég hef reynt að hugsa ekki of mikið um starfslokin, þar sem ég vil klára vinnutímann vel. En það er samt ekki hægt að horfa framhjá því að í fyrsta skipti á ævinni *veit ég ekkert hvað ég á að gera*.

Að vissu leyti er það óþægilegt, en að öðru leyti yndislegt. Ég hef strax fengið nokkur gríðarlega áhugaverð tilboð og eru sum lygilega góð. Sum þeirra eru á Íslandi, önnur erlendis. Í raun snýst þetta um meira en bara vinnu, því ég þarf líka að ákveða mig *hvar* ég ætla að vinna.

Ég hef semsagt 8 vikur þangað til að ég hætti hjá Danól. Það eru allavegana spennandi tímar framundan. Óvissan er á margan hátt skemmtileg.