Innihaldslsaus froða

Ef það er eitthvað, sem hefur komið mér á óvart í þessari kosningabaráttu í Reykjavík, þá er það algjört innihaldsleysið í kosningabaráttu Sjálfstæðismanna. Ekki nóg með að flokkurinn sé að reyna að villa á sér heimilidir sem mjúkur og mildur flokkur, sem höfði til kvenna, heldur eru flest loforðin og auglýsingarnar algjörlega innihaldslaus.

Það, sem sýnir þetta kannski best er að ungir Sjálfstæðismenn virðast fara á handahlaupum frá sínum eigin hugsjónum og hugmyndum í kosningabaráttunni. Þeir loka vefsíðunni sinni og koma svo fram með stefnumál, sem hefðu alveg eins getað komið frá Vinstri Grænum. Hérna er [farið yfir ALLA stefnuskrá ungra íhaldsmanna](http://agnar.blog.is/blog/agnar/entry/13660/?t=1148322016) á nokkuð góðan hátt.


Í raun skil ég ekki alveg af hverju ég ætti að kjósa Íhaldið. Á tímabili þegar prófkjörsbarátta þeirra stóð yfir og þeir birtu hugmyndir um eyjabyggð, þá var ég bara orðinn nokkuð spenntur og ætlaði að endurtaka æskuafglöp mín og kjósa Sjálfstæðismenn.

En núna skil ég ekki lengur af hverju maður ætti að kjósa þá. Jú, þeir eru með kall, sem hefur verið í borgarstjórn frá því að ég fæddist, en ég lít ekki beint á það sem kost. Og þeir ætla að byggja mislæg gatnamót hjá Kringlunni (ég keyri þau gatnamót tvisvar á hverjum degi og get staðfest það að byggja mislæg gatnamót þar væri mesta peningasóun í heimi). Já, og svo ætla þeir kannski að flytja flugvöllinn og kannski ekki, hafa engar hugmyndir um miðbæinn, ætla að útvega öllum lóðir (af því að auðvitað vilja og geta *allir* byggt sitt eigið einbýlishús) og ætla kannski að byggja útí eyjunum en samt ábyggilega ekki.

Restin í kosningabaráttunni er mestmegnis froða. Þeir ætla að vera góðir við börn, telja að börnin séu framtíð landsins og að þeim finnist gaman að leika sér með kubba. Svo ætla þeir að hafa leikskólana aðeins minna gjaldfrjálsa en aðrir og eitthvað meira. Já, og svo hata þeir R-listann og Samfylkinguna. Fleiru hef ég ekki náð útúr þessari baráttu þeirra.